Körfubolti

NBA í nótt: James og Wade báðir yfir 30 stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwayne Wade í baráttu í leiknum í nótt.
Dwayne Wade í baráttu í leiknum í nótt. Mynd/AP
Dwyane Wade og LeBron James tókst í nótt í fyrsta sinn á tímabilinu að skora meira en 30 stig í einum og sama leiknum er Miami vann sigur á Charlotte, 96-82.

James var með 38 stig og er það í tíunda sinn í vetur sem hann skorar meira en 30 stig í leik. Wade skoraði 31 stig og braut 30-stiga múrinn í níunda skiptið. En þetta var í fyrsta skiptið sem þeir gera það báðir í sama leiknum.

Þetta var átjándi sigur Miami í síðustu nítján leikjum liðsins og óhætt að segja að liðið lítur betur út nú en í upphafi tímabilsins er liðið vann aðeins níu af fyrstu sautján leikjum þess.

Orlando vann Golden State, 110-90. Hedo Turkoglu var með þrefalda tvennu - tíu stig, fjórtán fráköst og tíu stoðsendingar. Dwight Howard var með 22 stig og sautján fráköst.

Boston vann Minnesota, 96-93. Paul Pierce var með 23 stig fyrir Boston sem lenti meira en tíu stigum undir í leiknum.

New Orleans vann Philadelphia, 84-77. David West skoraði sautján stig fyrir New Orleans.

Denver vann Houston, 113-106. Carmelo Anthony skoraði 33 stig fyrir Denver sem vann sinn fjórða í leik í röð í nótt.

Utah vann Detroit, 102-97. Deron Williams skoraði 22 stig en þetta var ellefti sigur Utah á Detroit í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×