Skoðun

Ofan í kassana!

Ögmundur Jónasson skrifar
Hrunskýrslurnar sögðu að á Íslandi skorti umræðuhefð. Reyndar held ég að þetta sé ekki einskorðað við Ísland. Víða gengur mönnum illa að höndla málefnalega umræðu. Á tímum Kalda stríðsins voru sósíalistar, ekki aðeins hér á landi heldur víða erlendis, afgreiddir sem aftaníossar Sovétmanna þegar þeir tefldu fram málefnalegum rökum um mikilvægi jöfnuðar í þjóðfélaginu; hvort þeir vildu ekki líka senda alla í nauðungarvist til Síberíu! Þetta var gjarnan viðkvæðið til að slökkva á allri umræðu þegar reistar voru kröfur um þjóðfélagsumbætur.

Hannes Hólmsteinn minnir okkur á þessa tíma, ekki síst með eigin efnistökum, þegar hann fjallar um sósíalista á Íslandi á árum áður. Það er ekki nóg með að hann sé ónákvæmur og fari rangt með, heldur eru hinir óþóknanlegu afgreiddir með skírskotun til þess kassa sem Hannes ætlar þeim í tilverunni.

En hvernig komumst við út úr þessari smáu kassahugsun sem aldrei hlustar á rök, horfir bara til kassans sem einstaklingunum skal troðið niður í til að svipta þá málfrelsi sínu?

Nýlega fór fram umræða um hvernig ætti að standa að fyrirsvari Íslands gagnvart EFTA-dómstólnum. Átti það áfram að vera efnahags- og viðskiptaráðuneyti eða utanríkisráðuneyti? Í ríkisstjórn vorum við ekki sammála en komumst engu að síður að niðurstöðu. Í utanríkismálanefnd fór fram nákvæmlega sams konar umræða, nema þar höfðu fjölmiðlar engan áhuga á efnisinnihaldi umræðunnar heldur á því einu að einn stjórnarþingmaður var á sömu skoðun og þingmenn í stjórnarandstöðu. Sjónarmiðin voru með öðrum orðum ekki eftir flokkslínum fremur en í ríkisstjórn. Þetta varð stórfrétt og þótti mér örla á lönguninni til að kveða upp pólitíska útlegðardóma yfir þeirri þingkonu sem hafði vogað sér ofan í rangan kassa.

Hvenær skyldum við vera tilbúin að takast á við málefnalega umræðu?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×