Skoðun

Væntur lífeyrir og lánakjör

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingkona skrifar grein í Fréttablaðinu þar sem hún spyr hversu raunsætt það sé að byggja lífeyriskerfi á ávöxtun upp á 3,5%, sem er viðmið lágmarks árlegrar raunávöxtunar lífeyrissjóða. Þetta viðmið var hugsanlega ekki fráleitt þegar lögin voru sett árið 1997 því að árlegur hagvöxtur hafði þá að meðaltali aukist síðustu 30 ár (1966 til 1995) um 3,5% og raunar 4% síðustu 50 ár. Hagvöxtur hefur hins vegar ekki verið nálægt þessum forsendum lengi. Þetta meðaltal síðustu þrjá áratugi hefur verið um 2,5% og miðað við nýjustu tölur Hagstofunnar er það meðaltal stöðugt að lækka.

Þessi þróun endurspeglast að stórum hluta í ávöxtunarkröfum ríkisskuldabréfa. Þegar lögin voru samþykkt 1997 var ávöxtunarkrafa verðtryggðra húsbréfa (sem nú eru íbúðabréf) í kringum 5-6% en hafði verið töluvert hærri árin áður. Meðalvextir íbúðabréfa eru í dag samkvæmt Lánamálum ríkisins aðeins um 2,5%. Svipuð þróun hefur átt sér stað á verðtryggðum ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum, þar sem ávöxtunarkrafan hefur síðustu ár farið úr 4% niður í jafnvel neikvæða raunávöxtun samhliða minni hagvexti. Möguleikar íslenskra lífeyrissjóða til að ná umræddri ávöxtun eru því takmarkaðir. Hér skipta meðaltalstölur ávöxtunar litlu máli – það sem mestu máli skiptir er vænt ávöxtun í upphafi fjárfestingar.

Þetta viðmið heldur líka vöxtum húsnæðislána óeðlilega háum. Lækkun stýrivaxta hefur hingað til vart haft áhrif á raunvexti húsnæðislána í landinu. Þar sem lífeyrissjóðum er lögum samkvæmt skylt að ávaxta sitt fé með 3,5% ávöxtunarviðmiði hafa þeir ekki rými til að aðlaga kjör lána til sjóðsfélaga sinna í takti við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa, sem hefur sögulega borið í kringum 0,5% álag. Ef slík lán væru í takti við lækkun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa væru raunvextir húsnæðislána um 1% lægri. Afnám slíks vaxtagólfs myndi því lækka árlega vaxtabyrði fjölskyldu með 30 milljóna króna húsnæðislán um 300.000 krónur, skattfrjálst.




Skoðun

Sjá meira


×