Lífið

Fanga gamla tíma í nýju blaði

Gefa út tímarit Guðmundur Jörundsson og starfsmenn herrafataverslunar Kormáks & Skjaldar gefa út tímaritið Spjátrung í dag. Fréttablaðið/anton
Gefa út tímarit Guðmundur Jörundsson og starfsmenn herrafataverslunar Kormáks & Skjaldar gefa út tímaritið Spjátrung í dag. Fréttablaðið/anton
„Við fengum þessa hugmynd í sumar og erum búnir að vinna í blaðinu síðan þá,“ segir Guðmundur Jörundsson fatahönnuður um nýtt tímarit herrafataverslunar Kormáks & Skjaldar, Spjátrung.

Tímaritið kemur út í dag en þar er að finna ýmsan fróðleik varðandi herrafatnað og þau merki sem verslunin selur. Blaðið er svo myndskreytt af ljósmyndaranum Baldri Kristjánssyni en Guðmundur staðfestir að mikið sé lagt í fagrar myndir.

„Það er gamaldags blær yfir blaðinu og sett upp í gömlu dagblaðaformi. Það eru til dæmis fyndnar auglýsingar og stuttar skemmtisögur frá starfsmönnum búðarinnar,“ segir Guðmundur, en það eru starfsmennirnir sem sjá um að skrifa í tímaritið.

„Við stefnum á að gefa það út tvisvar á ári og lítum á blaðið sem góða heimild fyrir okkur í framtíðinni um það sem er að gerast í dag,“ segir Guðmundur, sem sá um að hanna nýja herrafatalínu verslunarinnar sem gerð eru góð skil í blaðinu.

Blaðinu verður dreift með eftirtektarverðum hætti en þeir hafa fengið til liðs við sig stráka úr leikfélagi Menntaskólans við Hamralíð sem ætla að hlaupa um bæinn og dreifa blaðinu til vegfarenda. „Þeir eiga að minna á gamla tíma og verða klæddir upp eins og blaðburðardrengir.“

Útgáfu blaðsins verður fagnað í kvöld klukkan 20 í versluninni í Kjörgarði.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.