Innlent

Einhliða upptaka myntar allt of hættuleg

Seðlabankastjóri Már Guðmundsson telur hættulegt að taka einhliða upp mynt annars lands án þess að vera í samstarfi við viðkomandi land um málið.fréttablaðið/anton
Seðlabankastjóri Már Guðmundsson telur hættulegt að taka einhliða upp mynt annars lands án þess að vera í samstarfi við viðkomandi land um málið.fréttablaðið/anton FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Allt of hættulegt er að taka einhliða upp mynt annars lands án þess að vera í samstarfi við landið að mati Más Guðmundssonar, bankastjóra Seðlabanka Íslands. Hann segir nauðsynlegt að hafa bakhjarl í seðlabanka viðkomandi lands.

Þetta kom fram á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Fulltrúar Seðlabankans svöruðu þar spurningum nefndarmanna um ýmislegt er lýtur að peningastefnumálum.

Már sagði einboðið að raungengi íslensku krónunnar mundi hækka, enda væri það í sögulegu lágmarki. Hann sagði flókið í fjárhagslegu samhengi að reka sjálfstæða peningastefnu með fullkomlega frjálsu fjármagnsflæði og lítinn gjaldmiðil. Lausnin á því vandamáli gæti verið að vera áfram með einhvers konar gjaldeyrishöft eða að stilla hagkerfið betur af og mismunandi þætti í efnahagskerfinu.

Alla kosti þyrfti að skoða vel og sérfræðingar Seðlabankans væru í þeirri vinnu nú um mundir. Á fyrri hluta næsta árs er von á skýrslu bankans um málið.

Már sagði hættu fólgna í því að bankakerfið væri í erlendri mynt án þess að möguleiki væri á því að veita bönkunum nokkra fyrirgreiðslu gegn veðum. Í því fælist mikil áhætta.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×