Fótbolti

Hallgrímur: Er betri í vörninni en skemmtilegra á miðjunni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hallgrímur verður áfram hjá SönderjyskE. Hann skorar hér gegn Portúgal.
Hallgrímur verður áfram hjá SönderjyskE. Hann skorar hér gegn Portúgal. Mynd/AP
„Ég er mjög sáttur við þessa niðurstöðu. Þetta er það sem ég og félagið vildum og því var gott að það gekk eftir,“ segir Húsvíkingurinn Hallgrímur Jónasson sem í gær skrifaði undir þriggja ára samning við danska félagið SönderjyskE.

„Mér líður mjög vel hérna. Aðstæður hér eru betri en í Svíþjóð, deildin er sterkari og ég fæ að spila þannig að þetta getur ekki verið betra. Mér hefur gengið vel og þeir eru ánægðir með mig. Ég vissi að ég gæti spilað í þessum styrkleikaflokki og hafði alltaf fulla trú á sjáfum mér. Ég fékk traustið strax frá byrjun og það hjálpaði mér líka.“

Hinn 25 ára gamli Hallgrímur er fjölhæfur leikmaður og hefur leikið bæði sem miðjumaður og miðvörður fyrir liðið. Í síðustu leikjum á miðjunni.

„Ég kann betur við mig á miðjunni. Það er aðeins meira fjör þar og maður fær að sækja. Ég held samt að ég geti spilað í hærri styrkleikaflokki sem varnarmaður. Það eru margir til í heiminum með góða tækni og það er ekki alltaf sterkasta hlið okkar Íslendinga,“ sagði Hallgrímur léttur sem er á leið í jólafrí en deildin í Danmörku byrjar síðan ekki aftur fyrr en í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×