Innlent

Leikmunabíll fauk út af vegi

Pétur Örn Guðmundsson er einn þeirra sem hafa fengið hlutverk í Game of Thrones. Tökur á þáttaröðinni eru byrjaðar í Skaftafelli.
Pétur Örn Guðmundsson er einn þeirra sem hafa fengið hlutverk í Game of Thrones. Tökur á þáttaröðinni eru byrjaðar í Skaftafelli. Fréttablaðið/Valli
„Jú, hérna voru þrjátíu metrar á sekúndu. Og leikmunabíll hjá okkur fauk út af veginum. En það slasaðist enginn og allir leikmunir eru heilir. Þetta gerðist bara í „slow-motion“,“ segir Snorri Þórisson hjá Pegasus. Tökur á bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones eru hafnar í Skaftafelli við Hótel Freysnes en mikið óveður reið yfir Austurland á fimmtudagskvöld með fyrrgreindum afleiðingum.

Hins vegar var veðrið gengið niður í gær og lék raunar við hvern sinn fingur. „Þetta er alveg eins og þeir vilja hafa þetta, kalt og snjólag yfir öllu, ekki samt of mikill snjór heldur alveg passlegur.“ Yfir hundrað manns koma að tökunum hér á landi, en þær standa yfir í tvær vikur. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru íslenskir statistar kallaðir í búningamátun í gær og meðal þeirra var Pétur Örn Guðmundsson, oftast kenndur við Jesú og hjómsveitina Buff.

Pétur vildi hins vegar ekkert tjá sig við Fréttablaðið og sagðist vera múlbundinn af trúnaðarsamkomulagi. „Ég má segja að ég sé í tökunum. Meira má ég eiginlega ekki segja og meira veit ég heldur ekki. Enda bara maður með spjót,“ segir Pétur, sem hafði ekki séð þáttaröðina en var hins vegar byrjaður að lesa bækurnar sem þættirnir eru byggðir á. „Ég er samt bara hálfnaður með fyrstu bókina og verð því heldur betur að spýta í augun,“ segir Pétur.- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×