Viðskipti innlent

Slitastjórn krefur Jón Ásgeir um 83 milljónir

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Slitastjórn Glitnis stendur nú í málaferlum við Jón Ásgeir Jóhannesson vegna 450 þúsund punda, jafnvirði um 83 milljóna króna, sem hún telur hann skulda sér í málskostnað vegna kyrrsetningarmáls í Bretlandi.

Kyrrsetningin var framkvæmd í fyrrasumar í tengslum við sex milljarða skaðabótamál sem slitastjórnin hefur höfðað hér á landi á hendur Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis.

Dómarinn ytra féllst á kyrrsetninguna og gaf Jón Ásgeir upp lista yfir eignir að andvirði ríflega 200 milljóna króna sem kyrrsetja mætti. Dómarinn gerði Jóni Ásgeiri jafnframt að greiða 150 þúsund pund í málskostnað, með fyrirvara um að sú upphæð kynni að hækka.

Slitastjórnin gerði samkomulag við Jón Ásgeir um að hann mætti selja einbýlishús á Laufásvegi, til að geta greitt pundin 150 þúsund. Húsið seldi hann móður sinni fyrir um 90 milljónir.

Kostnaðurinn er nú 600 þúsund pund, og slitastjórnin telur að Jón Ásgeir eigi að greiða mismuninn. Jón Ásgeir telur hins vegar að í samkomulaginu um söluna á húsinu hafi falist fullnaðaruppgjör. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×