Hvernig annað fólk hugsar Guðmundur Andri Thorsson skrifar 17. október 2011 11:00 Kannski er sumt fólk ekki nógu duglegt lengur að lesa bækur. Kannski á það sinn þátt í því að svo margt fólk virðist hætt að heyra hvert í öðru, hætt að nenna að hlusta hvert á annað, hætt að hafa áhuga á því sem öðrum kann að finnast. Auðvitað er til fullt af bókum sem hafa ekki erindi sem erfiði við að segja manni eitthvað. Þær köllum við leiðinlegar. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt, því að allar bækur hafa sér til ágætis nokkuð; við þurfum bara að stilla hugann á þá tíðni sem höfundurinn skrifar á og þá heyrum við kannski það sem höfundinum liggur á hjarta. Því að það er það fallega við bækur. Þær geyma það sem einhverjum liggur á hjarta. Heili tengist heilaBækur eru mismerkilegar. Sumar bækur renna mildilega eins og lækur, aðrar eru eins og kækur – og enn aðrar óhreinar nærbrækur. Þau eru sem sagt misjafnlega brýn erindin sem bækur eiga við okkur. En það magnaða við bóklesturinn er hins vegar að þá hreyfum við augun frá vinstri til hægri og þýðum litlu myndirnar á blaðinu yfir á hugarmyndir sem framkalla hugsanir, kenndir, fólk, atburði, stemningu, veður, náttúru, hrylling, blíðu og ást – og allt átti þetta sér upphaf í öðru hugskoti. Lestur er bein tenging tveggja heilabúa. Heili lesandans tengist heila semjandans. Við þurfum með öðrum orðum þegar við lesum að setja okkur í spor annarra. Við þurfum að setja okkur fyrir hugskotssjónir hvernig öðru fólki líður, hvað það hugsar og hvernig. Þess vegna gerir lestur fólk að upplýstari og víðsýnni manneskjum en ella. Sá sem aldrei les neitt getur að vísu eitthvað þroskað þennan innlifunarhæfileika sem okkur er sennilega áskapaður með ýmsu öðru móti, ekki síst með því að njóta lista í öðrum búningi eða með því að þroska aðra áskapaða sérmannlega gáfu, trúarkenndina – en lestur á bókum er samt sem áður einstætt samskiptamunstur tveggja heilabúa því að hann fer fram í næði, kyrrþey – einbeitingu; hann krefst athygli. Við þurfum sjálf að þýða orðin yfir í hugarmyndir. Það er nefnilega verið að fara inn í heilabú með öllu því sem orð geta miðlað, ekki bara verið að skiptast á algengum yfirborðsfrösum og almæltum tíðindum eins og við gerum á Facebook og öðrum skvaldurmiðlum sem krefja okkur um athyglisbrest; að athyglin hvarfli. Krafan um ólæsiStundum finnst manni umræðan þannig að fólkið sem hætt er að lesa og virða bækur krefjist þess hálfpartinn að aðrir lesi heldur ekki bækur. Það lætur líta svo út sem sá fjórðungur ungra drengja sem segjast ekki lesa neitt tákni alla drengi, gott ef ekki karlkynið eins og það leggur sig og fylgja svo alls konar ábúðarmiklar staðhæfingar um minni heila ungra pilta en stúlkna og áskapað hæfileikaleysi til lestrar. Er það ekki hálfgerður þvættingur? Sumir krakkar eiga reyndar við lesblindu að stríða, sem er viss sérgáfa, því lesblindunni fylgja aðrir merkilegir eiginleikar sem lesandi krakkar eru síður gæddir, en svo er líka hitt til: að sumir séu treglæsir af þeim einföldu ástæðum að þeir lesa aldrei neitt. Og lesa aldrei neitt af því að þeir eru treglæsir. En sum sé: það er til fólk sem stærir sig af því að lesa aldrei bækur. Það lætur gera innanhússmunaþætti í sjónvarpið þar sem þess er vandlega gætt og fylgt fram af hörku að hvergi sjáist bækur eða bókaskápur, með þeim afleiðingum að ágætir og valinkunnir bókasafnarar hafa verið reknir ofan í kjallara og kassa með framúrskarandi bókasöfn af mökum sem trúað hafa innanhússfrömuðunum og þeirri stefnu að ekki eigi að vera neitt heima hjá fólki nema einn stóll sem er eftir einhvern. En bækur eiga að vera kringum fólk. Annars visna þær og deyja, hugsanirnar í þeim úldna ofan í rykugum og dimmum kössum. Fái gamlar bækur hins vegar að vera innan um fólk taka hugsanirnar að streyma frá þeim og umvefja heimilisfólkið sem verður bæði gáfað og sérviturt af þessu sambýli. Það er margreynt. Bækur eru óforgengilegar. Þær geyma innan spjalda sinna hugsanir sem eru kannski þrjátíu ára eða þúsund ára. Ég get ekki lesið neitt af því sem ég skrifaði í tölvuna fyrir tíu árum – hvað þá fimmtán. Það liggur einhvers staðar grafið í jörðu innan um ónýtt járnarusl. Bréf sem ég skrifaði, sögur sem ég byrjaði á en lauk aldrei við, ritgerðir, greinar, hugleiðingar, dagbækur – ég og mitt innra líf. Ég hirti ekki um að prenta þetta út, fannst slíkt eintóm fordild og sjálfsupphafning, treysti tölvunni fyrir þessu. Og nú er þetta allt glatað. Tölvuköllunum sem við treystum fyrir þessu vilja nú ýmsir treysta fyrir varðveislu bókmenntanna um komandi aldir með því að leggja niður eiginlegar bækur og taka upp tölvubækur í staðinn – helst bækur sem við getum verið að lesa á meðan við erum á Facebook, á túbunni að horfa á myndband, með iTunes í gangi að hlusta á íhugula en hressa playlistann og með hitt augað á Kastljósinu í sjónvarpinu. Þetta er ekki að lesa. Lestur er ljósgeisli þegar búið er að draga niður ljósin allt í kring. Lestur er einbeiting, alefling hugans. Maður sest niður einhvers staðar hæfilega afsíðis, dregur undir sig fæturna og fer að færa augun frá vinstri til hægri, taka mynd af heilu málsgreinunum, svo að inni í heilabúinu opnast hvelfingar. Við nemum lykt, tilfinningu, veður, sjáum andlit, fas, samskipti, ráðum í orð, heyrum marra í hurð, glugga skellast, hróp og hvísl … stöndum í mannlífinu miðju, flettum og skiljum allt í einu hvernig annað fólk hugsar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun
Kannski er sumt fólk ekki nógu duglegt lengur að lesa bækur. Kannski á það sinn þátt í því að svo margt fólk virðist hætt að heyra hvert í öðru, hætt að nenna að hlusta hvert á annað, hætt að hafa áhuga á því sem öðrum kann að finnast. Auðvitað er til fullt af bókum sem hafa ekki erindi sem erfiði við að segja manni eitthvað. Þær köllum við leiðinlegar. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt, því að allar bækur hafa sér til ágætis nokkuð; við þurfum bara að stilla hugann á þá tíðni sem höfundurinn skrifar á og þá heyrum við kannski það sem höfundinum liggur á hjarta. Því að það er það fallega við bækur. Þær geyma það sem einhverjum liggur á hjarta. Heili tengist heilaBækur eru mismerkilegar. Sumar bækur renna mildilega eins og lækur, aðrar eru eins og kækur – og enn aðrar óhreinar nærbrækur. Þau eru sem sagt misjafnlega brýn erindin sem bækur eiga við okkur. En það magnaða við bóklesturinn er hins vegar að þá hreyfum við augun frá vinstri til hægri og þýðum litlu myndirnar á blaðinu yfir á hugarmyndir sem framkalla hugsanir, kenndir, fólk, atburði, stemningu, veður, náttúru, hrylling, blíðu og ást – og allt átti þetta sér upphaf í öðru hugskoti. Lestur er bein tenging tveggja heilabúa. Heili lesandans tengist heila semjandans. Við þurfum með öðrum orðum þegar við lesum að setja okkur í spor annarra. Við þurfum að setja okkur fyrir hugskotssjónir hvernig öðru fólki líður, hvað það hugsar og hvernig. Þess vegna gerir lestur fólk að upplýstari og víðsýnni manneskjum en ella. Sá sem aldrei les neitt getur að vísu eitthvað þroskað þennan innlifunarhæfileika sem okkur er sennilega áskapaður með ýmsu öðru móti, ekki síst með því að njóta lista í öðrum búningi eða með því að þroska aðra áskapaða sérmannlega gáfu, trúarkenndina – en lestur á bókum er samt sem áður einstætt samskiptamunstur tveggja heilabúa því að hann fer fram í næði, kyrrþey – einbeitingu; hann krefst athygli. Við þurfum sjálf að þýða orðin yfir í hugarmyndir. Það er nefnilega verið að fara inn í heilabú með öllu því sem orð geta miðlað, ekki bara verið að skiptast á algengum yfirborðsfrösum og almæltum tíðindum eins og við gerum á Facebook og öðrum skvaldurmiðlum sem krefja okkur um athyglisbrest; að athyglin hvarfli. Krafan um ólæsiStundum finnst manni umræðan þannig að fólkið sem hætt er að lesa og virða bækur krefjist þess hálfpartinn að aðrir lesi heldur ekki bækur. Það lætur líta svo út sem sá fjórðungur ungra drengja sem segjast ekki lesa neitt tákni alla drengi, gott ef ekki karlkynið eins og það leggur sig og fylgja svo alls konar ábúðarmiklar staðhæfingar um minni heila ungra pilta en stúlkna og áskapað hæfileikaleysi til lestrar. Er það ekki hálfgerður þvættingur? Sumir krakkar eiga reyndar við lesblindu að stríða, sem er viss sérgáfa, því lesblindunni fylgja aðrir merkilegir eiginleikar sem lesandi krakkar eru síður gæddir, en svo er líka hitt til: að sumir séu treglæsir af þeim einföldu ástæðum að þeir lesa aldrei neitt. Og lesa aldrei neitt af því að þeir eru treglæsir. En sum sé: það er til fólk sem stærir sig af því að lesa aldrei bækur. Það lætur gera innanhússmunaþætti í sjónvarpið þar sem þess er vandlega gætt og fylgt fram af hörku að hvergi sjáist bækur eða bókaskápur, með þeim afleiðingum að ágætir og valinkunnir bókasafnarar hafa verið reknir ofan í kjallara og kassa með framúrskarandi bókasöfn af mökum sem trúað hafa innanhússfrömuðunum og þeirri stefnu að ekki eigi að vera neitt heima hjá fólki nema einn stóll sem er eftir einhvern. En bækur eiga að vera kringum fólk. Annars visna þær og deyja, hugsanirnar í þeim úldna ofan í rykugum og dimmum kössum. Fái gamlar bækur hins vegar að vera innan um fólk taka hugsanirnar að streyma frá þeim og umvefja heimilisfólkið sem verður bæði gáfað og sérviturt af þessu sambýli. Það er margreynt. Bækur eru óforgengilegar. Þær geyma innan spjalda sinna hugsanir sem eru kannski þrjátíu ára eða þúsund ára. Ég get ekki lesið neitt af því sem ég skrifaði í tölvuna fyrir tíu árum – hvað þá fimmtán. Það liggur einhvers staðar grafið í jörðu innan um ónýtt járnarusl. Bréf sem ég skrifaði, sögur sem ég byrjaði á en lauk aldrei við, ritgerðir, greinar, hugleiðingar, dagbækur – ég og mitt innra líf. Ég hirti ekki um að prenta þetta út, fannst slíkt eintóm fordild og sjálfsupphafning, treysti tölvunni fyrir þessu. Og nú er þetta allt glatað. Tölvuköllunum sem við treystum fyrir þessu vilja nú ýmsir treysta fyrir varðveislu bókmenntanna um komandi aldir með því að leggja niður eiginlegar bækur og taka upp tölvubækur í staðinn – helst bækur sem við getum verið að lesa á meðan við erum á Facebook, á túbunni að horfa á myndband, með iTunes í gangi að hlusta á íhugula en hressa playlistann og með hitt augað á Kastljósinu í sjónvarpinu. Þetta er ekki að lesa. Lestur er ljósgeisli þegar búið er að draga niður ljósin allt í kring. Lestur er einbeiting, alefling hugans. Maður sest niður einhvers staðar hæfilega afsíðis, dregur undir sig fæturna og fer að færa augun frá vinstri til hægri, taka mynd af heilu málsgreinunum, svo að inni í heilabúinu opnast hvelfingar. Við nemum lykt, tilfinningu, veður, sjáum andlit, fas, samskipti, ráðum í orð, heyrum marra í hurð, glugga skellast, hróp og hvísl … stöndum í mannlífinu miðju, flettum og skiljum allt í einu hvernig annað fólk hugsar.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun