Erlent

Segir Pútín mesta stjórnmálaskörung landsins

Dmitrí Medvedev Segir ástæðulaust að keppa við Pútín, þar sem skoðanir þeirra eru svo líkar.
nordicphotos/AFP
Dmitrí Medvedev Segir ástæðulaust að keppa við Pútín, þar sem skoðanir þeirra eru svo líkar. nordicphotos/AFP
„Pútín er tvímælalaust mesti stjórnmálaskörungur landsins og vinsældir hans mælast meiri,“ sagði Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti í sjónvarpsviðtali, þar sem hann útskýrði þá ákvörðun sína að bjóða sig ekki fram til forseta næsta kjörtímabil.

Þeir Vladimír Pútín forsætisráðherra komu sér saman um að Pútín byði sig fram næst, en Medvedev yrði forsætisráðherra hans.

Í viðtalinu sagði Medvedev að skoðanir þeirra og markmið færu að mestu saman, en sagði ekkert hæft í því að Pútín hefði bara notað Medvedev til að „passa fyrir sig“ forsetaembættið í eitt kjörtímabil. Á endanum væru það kjósendur sem réðu.

„Úr því að afstaða okkar er svona svipuð, ættum við þá að vera að keppa hvor við annan?“ spurði Medvedev og sagðist engan veginn hafa verið að blekkja kjósendur í fyrri yfirlýsingum, þegar hann vildi ekki útiloka það að bjóða sig fram aftur.

Pútín var forseti Rússlands í tvö kjörtímabil áður en Medvedev tók við embættinu, en samkvæmt stjórnarskrá má enginn sitja lengur en tvö kjörtímabil samfleytt í embætti forseta. Ekkert bannar Pútín hins vegar að sækjast eftir embættinu á ný eftir að hafa setið hjá í eitt kjörtímabil.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×