Innlent

Betlistafur eini kostur lögreglu

LÖGREGLAN Lögreglumenn koma saman til fundar í dag.
LÖGREGLAN Lögreglumenn koma saman til fundar í dag.
„Það eina sem lögreglumenn geta gert er að ganga um með betlistaf og biðla til ríkisvaldsins að skoða okkar launakjör ofan í kjölinn, sjá hvað þarna er að og leiðrétta það, en vilji ríkisvaldsins virðist ekki hafa verið mikill til þess undanfarið.“

Þetta segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, eftir úrskurð gerðardóms, þar sem kveðið er á um að laun lögreglumanna skuli hækka að sama marki og samningar á almennum vinnumarkaði, auk þrettán þúsund króna hækkunar á álagsgreiðslum.

Úrskurður gerðardóms er endanleg niðurstaða í málinu og gildir ný launatafla til vors 2014.

Mikil ólga er í lögreglumönnum um land allt eftir þennan úrskurð.

„Lögreglumenn hefðu þurft að fá 20 til 30 prósenta launahækkun til viðbótar til að geta unað sáttir við sitt,“ segir Snorri. „Þessi úrskurður leiðréttir ekki þann launamun sem orðinn er hjá okkur annars vegar og hins vegar þeim viðmiðunarhópum sem við höfum horft til í gegnum tíðina og vitnað er til í þeim viðmiðunarsamningi sem við fengum þegar samningsrétturinn var afnuminn.“

Lögreglumenn koma saman á félagsfund í dag, þar sem lögfræðingar munu fara með þeim yfir kosti þeirra í stöðunni.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×