Erlent

Fjármálaráðherra segir af sér

Pútín og Medvedev
Pútín og Medvedev
Fjármálaráðherra Rússlands, Alexei Kúdrín, sagði af sér embætti í gær. Kúdrín gagnrýndi efnahagsstefnu Dimitrís Medvedev forseta landsins um helgina, eftir að fréttir bárust af því að Medvedev og Vladimír Pútín hygðust skiptast á embættum í forsetakosningum í mars næstkomandi.

Kúdrín lét hafa eftir sér að hann myndi ekki starfa í ríkisstjórn undir stjórn Medvedevs. Hann hefur verið fjármálaráðherra frá árinu 2000 og er virtur bæði heima og heiman.

Medvedev brást ókvæða við ummælum Kúdríns og sagði þau óréttlætanleg. Hann gaf ráðherranum frest til loka gærdagsins til að segja af sér.

Sérfræðingar telja að Kúrdín hafi sjálfur vonast til að verða forsætisráðherra að loknum þingkosningum í desember. Afsögn hans veldur erlendum fjárfestum áhyggjum, en hann hefur vakið athygli fyrir aðgerðir sínar til að bjarga olíuauði ríkisins árið 2008. Pútín gæti orðið forseti í tvö kjörtímabil til viðbótar ef hann nær kjöri. Hann yrði þá þaulsetnasti forseti landsins síðan Stalín réði ríkjum í Sovétríkjunum. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×