Erlent

Fundu troðfullt skip af silfri

SS gairsoppa Vonast er til að hægt verði að hefjast handa við að ná málmunum úr skipinu á næsta ári. 
nordicphotos/afp
SS gairsoppa Vonast er til að hægt verði að hefjast handa við að ná málmunum úr skipinu á næsta ári. nordicphotos/afp
Um tvö hundruð tonn af silfri hafa fundist í skipi sem sökk á Atlantshafi árið 1941. Talið er að silfrið sé 230 milljóna Bandaríkjadala virði, eða rúmlega 27 milljarða íslenskra króna. Reynist það rétt hefur jafn verðmætur málmur aldrei fundist í sjó fyrr.

Skipinu SS Gairsoppa frá Bretlandi var sökkt af þýskum kafbáti í seinni heimsstyrjöldinni. Skipið var á leið heim til Bretlands eftir verslunarferð til Indlands. Aðeins einn skipverji af 32 lifði af og kom til lands hálfum mánuði eftir að skipið sökk.

Bandaríska könnunarfyrirtækið Odyssey Marine fann skipið í sumar og nú hefur verið staðfest að um SS Gairsoppa sé að ræða. Fyrirtækið mun halda eftir áttatíu prósentum af verðmæti farmsins. Mögulegt er að nokkuð af gulli leynist einnig í farminum. Mjög ólíklegt er talið að líkamsleifar þeirra sem fórust finnist, sökum þess hversu langt er síðan skipið fórst og á hve miklu dýpi það er.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast bjartsýnir á að hægt verði að ná verðmætunum úr skipinu. Það standi upprétt á hafsbotni og því verði hægt að senda eins konar vélmenni til að ná farminum. Talið er að hægt verði að hefja vinnu á fyrri hluta næsta árs.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×