Lífið

Teiknar andlit frægra leikara

Helena við hlið myndarinnar af Ingvari E. Sigurðssyni sem verður á sýningunni.
fréttablaðið/vilhelm
Helena við hlið myndarinnar af Ingvari E. Sigurðssyni sem verður á sýningunni. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta er mín ástríða,“ segir Helena Reynisdóttir, sem hefur opnað sína fyrstu einkasýningu, aðeins sautján ára.

„Þetta eru portrettteikningar af frægum leikurum, mjög nákvæmnar teikningar,“ segir Helena, en myndirnar eru sjö talsins. Tvær þeirra eru mjög stórar, af Ingvari E. Sigurðssyni og henni sjálfri. „Ég held að það hafi verið erfiðast út af því að þetta er mitt eigið andlit,“ segir hún um sjálfsmyndina. „Ég sé kannski ef það er eitthvað vitlaust en ég held að aðrir sjái það ekki.“

Aðrir leikarar sem Helena hefur teiknað undanfarna mánuði eru Jón Gnarr, Edda Björgvinsdóttir, Tómas Lemarquis, Baltasar Kormákur og Anita Briem. „Ég ákvað að hafa þema með leikurum. Sýningin heitir Ekki er allt sem sýnist af því að þetta eru leikarar. Maður veit aldrei hvort þetta eru í alvörunni þeir eða hvort þeir eru að leika,“ segir Helena.

Aðspurð segist hún hafa reynt að bjóða öllum myndefnunum sínum á sýninguna en það hafi gengið misvel. „Ég er búin að reyna að ná í þau en það er frekar erfitt. Ég er búin að bjóða Eddu en ég veit ekki hvort hún kemst.“

Helena, sem er í Mennntaskólanum í Hamrahlíð, hefur farið á eitt myndlistarnámskeið en er annars sjálfmenntuð í faginu. „Þetta er bara mitt áhugamál. Mamma mín er myndlistarkennari og afi minn var útskurðarmeistari. Það eru allir einhvers konar listamenn í fjölskyldunni.“

Sýningin fer fram í kaffihúsinu Energia í Smáralind og stendur yfir út september.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.