Fótbolti

Sara Björk: Ég hef það mjög gott

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sara Björk er á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð.
Sara Björk er á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð. Mynd/Stefán
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði þrennu þegar lið hennar, Malmö, vann 5-0 sigur á Jitex í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Þetta er í annað skiptið á tímabilinu sem Sara Björk skorar þrjú mörk í einum og sama leiknum.

„Ég fann mig vel í kvöld en við höfum átt nokkuð erfitt uppdráttar eftir að deildin fór aftur af stað eftir HM-frí," sagði Sara Björk við Fréttablaðið í gær. „Við vorum búnar að tapa og gera jafntefli í leikjunum á undan en við erum vonandi komnar á gott ról, eins og við vorum á fyrir sumarfríið."

Malmö komst á topp deildarinnar í gær þar sem Umeå gerði á sama tíma jafntefli. Liðin eru jöfn að stigum en Malmö er með betra markahlutfall. Malmö er ríkjandi meistari og segir Sara Björk að stefnan sé vitanlega sett á að verja hann.

Hún er á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð og líður vel ytra. „Ég hef það mjög gott. Ég var búin að hugsa lengi um að koma mér út og spila í stærri deild. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun."- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×