Hvern dæmir sagan? Ólafur Stephensen skrifar 10. júní 2011 00:01 Málareksturinn gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdómi ber mörg einkenni pólitískra réttarhalda. Það á við um hina upphaflegu ákvörðun Alþingis, að ákæra Geir einan en ekki aðra ráðherra, sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi hafa vanrækt skyldur sínar í aðdraganda bankahrunsins. Það var niðurstaðan af pólitískum hráskinnaleik hluta þingflokks Samfylkingarinnar, sem kaus að ákæra Geir en hlífa eigin flokksmönnum. Sama á við um vinnubrögð meirihluta þingmannanefndarinnar, sem lagði til við Alþingi að fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Nefndin framkvæmdi enga sjálfstæða rannsókn á málinu. Hún ræddi aldrei við hugsanlega sakborninga til að heyra þeirra hlið á málinu, sem þó telst sjálfsögð regla í réttarríki. Saksóknari Alþingis gerði heldur ekki neina rannsókn á sakargiftunum og gaf því út ákæru, sem er efnislega samhljóða ályktun Alþingis. Ákæruatriðin eru eftir því almennt orðuð og erfitt að festa hendur á þeim. Saksóknarinn ræddi heldur ekki við sakborninginn áður en ákæran var gefin út. Augljós skortur Sigríðar Friðjónsdóttur saksóknara á sannfæringu fyrir málinu og að réttarhöldin leiði til sakfellingar, er enn ein vísbendingin um að hér sé fyrst og fremst pólitískt mál á ferð. Af sama toga er ákvörðun saksóknarans um að opna sérstakan vef á kostnað skattgreiðenda til að útskýra sína hlið á málarekstrinum. Ef það væri venja ákæruvaldsins í stórum málum, væri minna út á þessa almannatengslastarfsemi að setja, en það er bara alls ekki raunin. Fleira bendir til að ýmissa grundvallarreglna réttarríkisins sé ekki gætt í málarekstrinum. Þar á meðal er breytingin á lögunum um Landsdóm, sem meirihluti Alþingis gerði eftir að ákveðið var að ákæra Geir, þannig að skipunartími dómaranna var framlengdur. Geir hefur réttilega sagt að slíkt fikt í regluverkinu myndi tæplega líðast í nokkru réttarríki. Geir Haarde sagði á blaðamannafundi fyrr í vikunni að vel færi á því að Steingrímur J. Sigfússon, Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson bæru ábyrgð á fyrstu pólitísku réttarhöldunum á Íslandi. Sumir hafa leitt að því getum að með þessu hafi hann vísað til þess að þessir þremenningar væru arftakar kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi, sem á sínum tíma studdi pólitísk sýndarréttarhöld í Sovétríkjunum. Það er reyndar dálítið langsótt. Nærtækara er að horfa til þess hvað þeir Steingrímur, Atli og Ögmundur hafa haft af því miklar áhyggjur undanfarin ár að tækjum réttarkerfisins sé misbeitt í pólitískum tilgangi. Þeir hafa til dæmis haft allt á hornum sér yfir afskiptum lögreglu af skemmdarverkum virkjanaandstæðinga, sem þeir hafa talið pólitísk, áformum um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, sem þeir hafa talið að kynnu að beinast gegn pólitískum andstæðingum stjórnvalda og þar fram eftir götunum. Nú stefnir hins vegar allt í að þessir yfirlýstu stuðningsmenn mannréttinda standi að því að þverbrjóta ýmsar reglur réttarríkisins til að koma höggi á einn mann, sem draga á til ábyrgðar fyrir heilt stjórnkerfi sem ekki réði við hlutverk sitt. Hætt er við að dómur sögunnar um þá verði ekki sá sem þeir hefðu kosið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Landsdómur Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór
Málareksturinn gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdómi ber mörg einkenni pólitískra réttarhalda. Það á við um hina upphaflegu ákvörðun Alþingis, að ákæra Geir einan en ekki aðra ráðherra, sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi hafa vanrækt skyldur sínar í aðdraganda bankahrunsins. Það var niðurstaðan af pólitískum hráskinnaleik hluta þingflokks Samfylkingarinnar, sem kaus að ákæra Geir en hlífa eigin flokksmönnum. Sama á við um vinnubrögð meirihluta þingmannanefndarinnar, sem lagði til við Alþingi að fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Nefndin framkvæmdi enga sjálfstæða rannsókn á málinu. Hún ræddi aldrei við hugsanlega sakborninga til að heyra þeirra hlið á málinu, sem þó telst sjálfsögð regla í réttarríki. Saksóknari Alþingis gerði heldur ekki neina rannsókn á sakargiftunum og gaf því út ákæru, sem er efnislega samhljóða ályktun Alþingis. Ákæruatriðin eru eftir því almennt orðuð og erfitt að festa hendur á þeim. Saksóknarinn ræddi heldur ekki við sakborninginn áður en ákæran var gefin út. Augljós skortur Sigríðar Friðjónsdóttur saksóknara á sannfæringu fyrir málinu og að réttarhöldin leiði til sakfellingar, er enn ein vísbendingin um að hér sé fyrst og fremst pólitískt mál á ferð. Af sama toga er ákvörðun saksóknarans um að opna sérstakan vef á kostnað skattgreiðenda til að útskýra sína hlið á málarekstrinum. Ef það væri venja ákæruvaldsins í stórum málum, væri minna út á þessa almannatengslastarfsemi að setja, en það er bara alls ekki raunin. Fleira bendir til að ýmissa grundvallarreglna réttarríkisins sé ekki gætt í málarekstrinum. Þar á meðal er breytingin á lögunum um Landsdóm, sem meirihluti Alþingis gerði eftir að ákveðið var að ákæra Geir, þannig að skipunartími dómaranna var framlengdur. Geir hefur réttilega sagt að slíkt fikt í regluverkinu myndi tæplega líðast í nokkru réttarríki. Geir Haarde sagði á blaðamannafundi fyrr í vikunni að vel færi á því að Steingrímur J. Sigfússon, Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson bæru ábyrgð á fyrstu pólitísku réttarhöldunum á Íslandi. Sumir hafa leitt að því getum að með þessu hafi hann vísað til þess að þessir þremenningar væru arftakar kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi, sem á sínum tíma studdi pólitísk sýndarréttarhöld í Sovétríkjunum. Það er reyndar dálítið langsótt. Nærtækara er að horfa til þess hvað þeir Steingrímur, Atli og Ögmundur hafa haft af því miklar áhyggjur undanfarin ár að tækjum réttarkerfisins sé misbeitt í pólitískum tilgangi. Þeir hafa til dæmis haft allt á hornum sér yfir afskiptum lögreglu af skemmdarverkum virkjanaandstæðinga, sem þeir hafa talið pólitísk, áformum um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, sem þeir hafa talið að kynnu að beinast gegn pólitískum andstæðingum stjórnvalda og þar fram eftir götunum. Nú stefnir hins vegar allt í að þessir yfirlýstu stuðningsmenn mannréttinda standi að því að þverbrjóta ýmsar reglur réttarríkisins til að koma höggi á einn mann, sem draga á til ábyrgðar fyrir heilt stjórnkerfi sem ekki réði við hlutverk sitt. Hætt er við að dómur sögunnar um þá verði ekki sá sem þeir hefðu kosið.