Skoðun

Nýir og nauðsynlegir sendiherrar

Ögmundur Jónasson skrifar
Nýverið hitti ég í Alþingishúsinu nýja sendiherra. Það væri ekki í frásögur færandi nema af því að þeir hafa sérstakt og brýnt hlutverk í samfélagi okkar: Að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks meðal jafningja sinna undir formerkjum hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun.



Sjö einstaklingar sóttu námskeið sem veitti þeim innsýn í sáttmálann sem Ísland undirritaði 30. mars 2007. Hann fjallar um það hvernig á að gæta þess að réttindi fatlaðs fólks í landinu séu tryggð. Og hver er betur til þess fallinn en einmitt sá sem er í þeim hópi? Hann getur best tjáð jafningjum sínum og okkur öllum hvernig við eigum að bera virðingu fyrir öllum, hverju þarf að breyta, hvernig gæta þarf að aðgengi og réttarkerfinu svo nokkuð sé nefnt.



Augljóst var af þessum stutta fundi okkar að sendiherrarnir nýju eru allir sem einn áhugasamir um að standa sig. Þetta eru þau Gísli Björnsson, Ingibjörg Rakel Bragadóttir, Ína Valsdóttir, María Hreiðarsdóttir, Skúli Steinar Pétursson, Þórey Rut Jóhannesdóttir og Þorvarður Karl Þorvarðarson. Þau hafa öll öðlast mikla reynslu í réttindabaráttu fatlaðra og þau hafa sérhæft sig í ákveðnum sviðum í þessu verkefni.



Núna í júní fara þau um og kynna samninginn öðru fólki með þroskahömlun. Þau skipta liði og heimsækja meðal annars hæfingarstöðvar, ýmsa vinnustaði og aðra þá staði sem óska eftir kynningu þeirra. Þar leggja þau upp í mikilvæga sendiför með mikilvæga þekkingu og áminningu sem koma þarf á framfæri.



Ég vil að lokum óska þeim velfarnaðar í sendiherrastarfinu og er sannfærður um að hér eru á ferðinni nýir og nauðsynlegir sendiherrar.


Tengdar fréttir

Að flytja að heiman

Þegar ég flutti að heiman flutti ég í íbúð með annarri konu. Okkur dreymdi um að við mundum búa saman þangað til ég færi á elliheimili. En hún flutti og fór í sambýli. Svo fékk ég aðra konu til að búa með mér en það gekk ekki upp. Nú bý ég ein í íbúð á elleftu hæð með fallegu útsýni.

Boðberar mannréttinda

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu fyrir rúmum fjórum árum. Samningurinn hefur þó ekki enn verið fullgiltur.

Einkalíf fatlaðra

Ég er einn af sendiherrum mannréttindasamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk. Fatlað fólk er jafnmismunandi og það er margt. Sjálfur er ég öryrki og hef alltaf unnið fyrir mínum launum þrátt fyrir hryggskekkju, athyglisbrest o.fl.

Sjálfstætt líf

Flest viljum við vera þátttakendur og tilheyra samfélagi. Samfélag getur þýtt margt, hverfið sem við búum í, skólinn er samfélag nemenda, starfsfólks og foreldra skólans og kirkjan er samfélag þeirra sem hana sækja. Okkur þykir sjálfsagt að tilheyra samfélagi og hafa rétt á að taka þátt í því. Flestir hugsa sjaldnast um það hvert samfélag okkar er og á hvaða þátt við búum í því. Við erum bara hluti af samfélaginu án þess að spá neitt meira í það.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×