Körfubolti

Ætlum okkur titilinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Þorsteinsson mun styrkja lið Grindavíkur mjög mikið.
Sigurður Þorsteinsson mun styrkja lið Grindavíkur mjög mikið. Fréttablaðið/Daníel
„Við ætlum okkur titilinn og ekkert kjaftæði," sagði ákveðinn formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, Magnús Andri Hjaltason, en félagið gekk í gær frá samningum við þá Sigurð Þorsteinsson og Jóhann Árna Ólafsson. Þá hefur Petrúnella Skúladóttir einnig skrifað undir samning við félagið.

Sigurður, sem kemur til liðsins frá Keflavík, skrifaði undir eins árs samning en Jóhann Árni og Petrúnella, sem koma frá liði Njarðvíkur, skrifuðu undir þriggja ára samninga. Hart var bitist um þjónustu Sigurðar, sem einnig var í viðræðum við KR.

„Það er frábært að fá þessa stráka enda eru þeir magnaðir leikmenn. Þetta er ekki eins dýrt og sögusagnirnar segja. Þetta er allt innan siðsamlegra marka. Það er ekkert bull hjá okkur," sagði Magnús Andri.

Hann sagði félagið ekki ætla að bæta við sig fleiri íslenskum leikmönnum en það myndi fá sér Kana er nær drægi vetri.

„Helgi þjálfari mun sjá um það þegar þar að kemur. Stefnan er að vera aðeins með einn Kana næsta vetur," sagði Magnús Andri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×