Hvað er íslenzki sjávarklasinn? Ólafur Stephensen skrifar 26. maí 2011 08:00 Kortlagning íslenzka sjávarklasans, sem kynnt var í fyrradag, er þarft verkefni og líklegt til að bæði breyta og skerpa sýn okkar á sjávartengda atvinnustarfsemi á Íslandi. Yfirlýst markmið verkefnisins, sem Háskóli Íslands og ýmis fyrirtæki standa að, er að „kortleggja alla starfsemi í sjávarklasanum, efla vitund, áhuga og samstarf og móta stefnu um sjávarklasann á Íslandi“. Þetta hafa ýmis nágrannaríki okkar gert. Slík kortlagning og stefnumótun hefur meðal annars farið fram í Kanada, Bretlandi, Noregi og á Írlandi. Bráðabirgðaniðurstöður kortlagningar sjávarklasans bregða upp miklu víðari mynd en við erum vön að hafa fyrir augum þegar horft er á sjávarútveg á Íslandi. Við erum vön að skilgreina sjávarútveginn sem veiðar og vinnslu, en í sjávarklasanum eru til dæmis ferðaþjónustufyrirtæki, flutningafyrirtæki, sölu- og markaðsfyrirtæki, hátækni- og hugbúnaðarfyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki og ýmis fyrirtæki í heilsutækni, þar á meðal lyfja- og líftæknifyrirtæki. Tæknifyrirtækin eru samtals um sjötíu, með 26 milljarða króna veltu og umtalsverðan eigin útflutning. Ýmsar ályktanir má draga af þeirri kortlagningu sjávarklasans, sem þegar er komin á blað. Í fyrsta lagi sýnir hún rækilega fram á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir margar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Málmsmíða- og viðgerðafyrirtæki eiga til dæmis helming veltu sinnar undir sjávarútveginum og veitufyrirtæki tæplega fimmtung. Samt eru furðumargir nýbúnir að halda því fram að starfsskilyrði sjávarútvegsins komi öðrum atvinnugreinum ekkert við. Í öðru lagi er ljóst að mestu vaxtarmöguleikarnir í sjávarklasanum á næstu árum eru ekki í veiðum og vinnslu, heldur í tækni- og þekkingarhluta klasans. Þar á hins vegar það sama við og í jarðvarmaklasanum, sem nýlega hefur verið kortlagður, að ef innlendi grunnurinn, í þessu tilviki veiðarnar og vinnslan, er ekki sterkur og byggður upp af öflugum fyrirtækjum er dregið úr möguleikum tækni- og þekkingarfyrirtækjanna á að þróa vörur sínar og þjónustu og þau geta átt á hættu að missa færustu sérfræðinga sína til útlanda. Í því ljósi þarf meðal annars að skoða áform ríkisstjórnarinnar um miklar breytingar á rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins. Í þriðja lagi blasir við að „hagsmunir sjávarútvegsins“ eru ekki eins einsleitir og menn vilja oft vera láta. Í sjávarklasanum er fjöldi fyrirtækja sem hefur til dæmis allt aðra afstöðu til erlendra fjárfestinga og hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu en flest hefðbundnu fyrirtækin í veiðum og vinnslu. Í kynningunni á sjávarklasanum kom fram að hann gæti skapað mörg ný störf og mikil verðmæti á næstu árum, jafnvel þótt starfsfólki í fiskveiðum og -vinnslu fækkaði. En til þess þurfa bæði fyrirtækin sjálf að auka samstarf sitt og marka sér stefnu og stjórnvöld að móta stefnu fyrir klasann og búa honum sem bezt og stöðugust rekstrarskilyrði. Sem stendur virðist sjávarklasinn fá sáralitla athygli og stuðning hjá stjórnvöldum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Kortlagning íslenzka sjávarklasans, sem kynnt var í fyrradag, er þarft verkefni og líklegt til að bæði breyta og skerpa sýn okkar á sjávartengda atvinnustarfsemi á Íslandi. Yfirlýst markmið verkefnisins, sem Háskóli Íslands og ýmis fyrirtæki standa að, er að „kortleggja alla starfsemi í sjávarklasanum, efla vitund, áhuga og samstarf og móta stefnu um sjávarklasann á Íslandi“. Þetta hafa ýmis nágrannaríki okkar gert. Slík kortlagning og stefnumótun hefur meðal annars farið fram í Kanada, Bretlandi, Noregi og á Írlandi. Bráðabirgðaniðurstöður kortlagningar sjávarklasans bregða upp miklu víðari mynd en við erum vön að hafa fyrir augum þegar horft er á sjávarútveg á Íslandi. Við erum vön að skilgreina sjávarútveginn sem veiðar og vinnslu, en í sjávarklasanum eru til dæmis ferðaþjónustufyrirtæki, flutningafyrirtæki, sölu- og markaðsfyrirtæki, hátækni- og hugbúnaðarfyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki og ýmis fyrirtæki í heilsutækni, þar á meðal lyfja- og líftæknifyrirtæki. Tæknifyrirtækin eru samtals um sjötíu, með 26 milljarða króna veltu og umtalsverðan eigin útflutning. Ýmsar ályktanir má draga af þeirri kortlagningu sjávarklasans, sem þegar er komin á blað. Í fyrsta lagi sýnir hún rækilega fram á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir margar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Málmsmíða- og viðgerðafyrirtæki eiga til dæmis helming veltu sinnar undir sjávarútveginum og veitufyrirtæki tæplega fimmtung. Samt eru furðumargir nýbúnir að halda því fram að starfsskilyrði sjávarútvegsins komi öðrum atvinnugreinum ekkert við. Í öðru lagi er ljóst að mestu vaxtarmöguleikarnir í sjávarklasanum á næstu árum eru ekki í veiðum og vinnslu, heldur í tækni- og þekkingarhluta klasans. Þar á hins vegar það sama við og í jarðvarmaklasanum, sem nýlega hefur verið kortlagður, að ef innlendi grunnurinn, í þessu tilviki veiðarnar og vinnslan, er ekki sterkur og byggður upp af öflugum fyrirtækjum er dregið úr möguleikum tækni- og þekkingarfyrirtækjanna á að þróa vörur sínar og þjónustu og þau geta átt á hættu að missa færustu sérfræðinga sína til útlanda. Í því ljósi þarf meðal annars að skoða áform ríkisstjórnarinnar um miklar breytingar á rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins. Í þriðja lagi blasir við að „hagsmunir sjávarútvegsins“ eru ekki eins einsleitir og menn vilja oft vera láta. Í sjávarklasanum er fjöldi fyrirtækja sem hefur til dæmis allt aðra afstöðu til erlendra fjárfestinga og hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu en flest hefðbundnu fyrirtækin í veiðum og vinnslu. Í kynningunni á sjávarklasanum kom fram að hann gæti skapað mörg ný störf og mikil verðmæti á næstu árum, jafnvel þótt starfsfólki í fiskveiðum og -vinnslu fækkaði. En til þess þurfa bæði fyrirtækin sjálf að auka samstarf sitt og marka sér stefnu og stjórnvöld að móta stefnu fyrir klasann og búa honum sem bezt og stöðugust rekstrarskilyrði. Sem stendur virðist sjávarklasinn fá sáralitla athygli og stuðning hjá stjórnvöldum.