Skoðun

(Ó)verðtryggð lán

Már Wolfgang Mixa skrifar
Eftir verðbólguskot í kjölfar Hruns hefur umræðan um að banna eigi verðtryggð lán verið hávær, meðal annars í nýlegri skýrslu Verðtryggingarnefndar. Þetta er undarlegt – verðtryggð lán hafa, þrátt fyrir allt, borið lægri nafnvexti en óverðtryggð lán, enda geta lánveitendur þá síður rukkað lántaka fyrir óvissuálagi sem jafnan fylgir óverðtryggðum lánum. Þetta eru niðurstöður erlendra rannsókna, auk þess sem samanburður á nafnávöxtun almennra skuldabréfalána banka og sparisjóða árin 1995-2010 gefur til kynna að óverðtryggð lán eru lántökum jafnan kostnaðarsamari.



Takmörkuð áhrif stýrivaxta eru meðal ókosta verðtryggðra lána. Þetta kom berlega fram í undanfara Hruns þegar stýrivextir hækkuðu sífellt án árangurs því verðbólga hélst lág vegna sterkrar krónu og bankar fóru að lána með lægra raunvaxtaálagi eða veita lán tengd erlendum myntum. Væru lán óverðtryggð myndi greiðslubyrði hækka í takti við vaxtahækkanir og virka eins og hækkun á leiguverði, sem drægi úr þenslu. Auk þess er freistnivandi fylgifiskur verðtryggðra lánveitinga því lántakendur þurfa að glíma við verðbólguskot, ekki lánveitendur.



Í stað þess að banna verðtryggð lán ætti að finna gullinn meðalveg í útlánum, þar sem framboð verðtryggðra og óverðtryggðra lána væri til staðar en dregið væri úr ókostum verðtryggðra lána. Einföld leið til að leysa vandann er að setja þak á verðtryggð lán tengt hverju veði. Sé hámarkslán af fasteignamati húsnæðis t.d. 70% en hámarkslánshlutfall fyrir verðtryggð lán einungis 50% þá þurfa þeir sem taka lán umfram 50% að fá óverðtryggt lán sem nemur í það minnsta 20% af fasteignamatinu.



Þannig bera stýrivextir meiri árangur, lántökum stendur til boða verðtryggt lán að ákveðnu marki en freistnivandi lánveitanda við útlán minnkar. Framboð á óverðtryggðum og verðtryggðum lánamöguleikum er því til staðar, stýrivextir Seðlabankans virka betur við hagstjórn og vitund fólks á vaxtakostnaði tengdum mismunandi lánum verður betri.




Skoðun

Sjá meira


×