Unnið fyrir opnum tjöldum Ólafur Stephensen skrifar 23. maí 2011 10:00 Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, svo og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, hafa gert alvarlegar athugasemdir við frummatsskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur vegna fyrirhugaðrar jarðhitavinnslu við Gráuhnúka í Bláfjöllum. Eftirlitsstofnanirnar telja að áhrif hugsanlegrar brennisteinsmengunar frá orkuvinnslunni séu stórlega vanmetin. Eingöngu sé stuðzt við spálíkön í stað þess að nota rannsóknir og mælingar, sem þó liggi fyrir. Ekkert sé fjallað um hugsanleg áhrif á stærsta íbúasvæði landsins, höfuðborgarsvæðið, sem þó sé skammt undan. Þá sé ekkert fjallað um veðurfar, en í austanáttum leggi brennisteinsfnykinn yfir borgina. Þá sé ekki fjallað um nýlegar rannsóknaniðurstöður, sem bendi til að tengsl séu milli vaxandi brennisteinsmengunar og meiri notkunar astma- og hjartalyfja. Íbúar höfuðborgarsvæðisins, að minnsta kosti eystri hverfanna, þurfa ekki að vera sérfróðir um umhverfismál til að átta sig á að brennisteinsmengun er stóraukið vandamál eftir að Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun. Í logni má oft finna megna brennisteinslykt og sumir eru alveg hættir að hafa ættarsilfrið uppi við vegna þess hvað fellur orðið hratt á það. Þetta eru hvort tveggja afleiðingar, sem hugsanlegt er að lifa með, sérstaklega af því að virkjunin er náttúrlega höfuðborgarbúum til hagsbóta. Hitt er miklu alvarlegri spurning, hvort brennisteinsmengunin hefur áhrif á heilsufar fólks. Eins og fram hefur komið í fréttaskýringum Fréttablaðsins undanfarna daga eru langtímaáhrif brennisteinsvetnis í fremur litlu magni á heilsu fólks lítið rannsökuð. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ákvað í fyrrasumar að setja reglugerð, sem setur leyfileg mörk brennisteinsvetnis talsvert lægra en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, miðar við. WHO-viðmiðið er sett með tilliti til bráðaáhrifa á augu, en ekki langtímaáhrifa á heilsu fólks sem býr við mengunina að jafnaði eins og höfuðborgarbúar gera nú. Ráðherra taldi vegna óvissu um langtímaáhrifin nauðsynlegt að setja mörkin nógu lágt til að almenningur nyti vafans. Þessu mótmæltu samtök orkufyrirtækja, en hyggjast þó að sjálfsögðu uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Til þess hafa þau þrjú ár og á þeim tíma þarf meðal annars að meta hvort þróun nýrrar tækni, sem byggist á að skilja brennisteinsgasið frá gufunni og dæla því aftur niður í jörðina með affallsvatni, skilar árangri. Ef ekki, þarf að kaupa hreinsibúnað sem getur kostað OR allt að tíu milljörðum króna. Í þessu máli er nauðsynlegt að læra af díoxín-hneykslinu varðandi mengun frá sorpbrennslum. Almenningur á að njóta vafans og ákvarðanir um meiri orkuvinnslu eiga að byggja á rannsóknum og mælingum, en ekki einhverju sem menn halda. Síðast en ekki sízt á að fjalla um málið algjörlega fyrir opnum tjöldum og miðla rannsóknaniðurstöðum rækilega til almennings. Hinu verða menn líka að átta sig á, að verði viðunandi mengunarvarnir dýrar, getur það þýtt að almenningur þurfi að borga meira fyrir orkuna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, svo og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, hafa gert alvarlegar athugasemdir við frummatsskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur vegna fyrirhugaðrar jarðhitavinnslu við Gráuhnúka í Bláfjöllum. Eftirlitsstofnanirnar telja að áhrif hugsanlegrar brennisteinsmengunar frá orkuvinnslunni séu stórlega vanmetin. Eingöngu sé stuðzt við spálíkön í stað þess að nota rannsóknir og mælingar, sem þó liggi fyrir. Ekkert sé fjallað um hugsanleg áhrif á stærsta íbúasvæði landsins, höfuðborgarsvæðið, sem þó sé skammt undan. Þá sé ekkert fjallað um veðurfar, en í austanáttum leggi brennisteinsfnykinn yfir borgina. Þá sé ekki fjallað um nýlegar rannsóknaniðurstöður, sem bendi til að tengsl séu milli vaxandi brennisteinsmengunar og meiri notkunar astma- og hjartalyfja. Íbúar höfuðborgarsvæðisins, að minnsta kosti eystri hverfanna, þurfa ekki að vera sérfróðir um umhverfismál til að átta sig á að brennisteinsmengun er stóraukið vandamál eftir að Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun. Í logni má oft finna megna brennisteinslykt og sumir eru alveg hættir að hafa ættarsilfrið uppi við vegna þess hvað fellur orðið hratt á það. Þetta eru hvort tveggja afleiðingar, sem hugsanlegt er að lifa með, sérstaklega af því að virkjunin er náttúrlega höfuðborgarbúum til hagsbóta. Hitt er miklu alvarlegri spurning, hvort brennisteinsmengunin hefur áhrif á heilsufar fólks. Eins og fram hefur komið í fréttaskýringum Fréttablaðsins undanfarna daga eru langtímaáhrif brennisteinsvetnis í fremur litlu magni á heilsu fólks lítið rannsökuð. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ákvað í fyrrasumar að setja reglugerð, sem setur leyfileg mörk brennisteinsvetnis talsvert lægra en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, miðar við. WHO-viðmiðið er sett með tilliti til bráðaáhrifa á augu, en ekki langtímaáhrifa á heilsu fólks sem býr við mengunina að jafnaði eins og höfuðborgarbúar gera nú. Ráðherra taldi vegna óvissu um langtímaáhrifin nauðsynlegt að setja mörkin nógu lágt til að almenningur nyti vafans. Þessu mótmæltu samtök orkufyrirtækja, en hyggjast þó að sjálfsögðu uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Til þess hafa þau þrjú ár og á þeim tíma þarf meðal annars að meta hvort þróun nýrrar tækni, sem byggist á að skilja brennisteinsgasið frá gufunni og dæla því aftur niður í jörðina með affallsvatni, skilar árangri. Ef ekki, þarf að kaupa hreinsibúnað sem getur kostað OR allt að tíu milljörðum króna. Í þessu máli er nauðsynlegt að læra af díoxín-hneykslinu varðandi mengun frá sorpbrennslum. Almenningur á að njóta vafans og ákvarðanir um meiri orkuvinnslu eiga að byggja á rannsóknum og mælingum, en ekki einhverju sem menn halda. Síðast en ekki sízt á að fjalla um málið algjörlega fyrir opnum tjöldum og miðla rannsóknaniðurstöðum rækilega til almennings. Hinu verða menn líka að átta sig á, að verði viðunandi mengunarvarnir dýrar, getur það þýtt að almenningur þurfi að borga meira fyrir orkuna.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun