Lífið

Fincher orðaður við Angelinu og Kleópötru

Angelina Jolie er með alla anga úti um þessar mundir og er meðal annars sögð spennt fyrir hlutverki Kleópötru.
Angelina Jolie er með alla anga úti um þessar mundir og er meðal annars sögð spennt fyrir hlutverki Kleópötru.
Bandaríski leikstjórinn David Fincher er sagður vera í viðræðum við framleiðandann Scott Rudin um að leikstýra stórmyndinni Kleópötru. Rudin og Fincher unnu saman að gerð The Social Network og Rudin hefur þegar tryggt sér þjónustu Angelinu Jolie í titilhlutverkið.

Leikkonan ku vera mjög áhugasöm um að fá Fincher, sem hefur auðvitað haldið sambýlismanni hennar, Brad Pitt, á floti með kvikmyndum á borð við Seven, Fight Club og The Curious Case of Benjamin Button.

Fincher er nú að leggja lokahönd á kvikmyndina Karlar sem hata konur eftir bók Stiegs Larsson og svo er á dagskránni að leikstýra neðansjávarmyndinni 20,000 Leagues Under the Sea. Samkvæmt fréttasíðu Indie Wire vonast Rudin til að Fincher setji það verkefni til hliðar og fallist á að leikstýra myndinni um drottningu Egyptalands eftir handriti Brians Helgeland.

Jolie sjálf gæti raunar sjálf orðið upptekin á næstunni því hún á að leika í kvikmyndinni Maleficent sem Tim Burton hugðist leikstýra. Hann er nú hættur og Disney leitar logandi ljósi að arftaka hans.

Jolie hefur næg járn í eldinum og hyggst framleiða kvikmyndina Churchill og Roosevelt með Anthony Hopkins. Leikkonan hefur hins vegar vísað því á bug að hún hyggist leikstýra þeirri mynd sjálf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.