Erlent

Skoska þingið vill kjósa um sjálfstæði

Ánægður leiðtogi Alex Salmond ætlar ekki að hraða þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt hann hafi nú meirihluta til þess á þingi. nordicphotos/AFP
Ánægður leiðtogi Alex Salmond ætlar ekki að hraða þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt hann hafi nú meirihluta til þess á þingi. nordicphotos/AFP
Alex Salmond, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, segir að sjálfstæði Skotlands sé nú óumflýjanlegt. Flokkur hans, sem hefur á stefnuskrá sinni aðskilnað Skotlands frá Bretlandi, náði meirihluta á skoska þinginu í kosningum á fimmtudag.

„Mín skoðun er sú að sjálfstæði sé meira eða minna óumflýjanleg örlög, en tímasetningin er auðvitað algerlega undir skosku þjóðinni komin,“ höfðu fjölmiðlar eftir Salmond.

Spurningin snúist eingöngu um það hvenær efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi um málið. Jafnvel Annabel Goldie, leiðtogi Íhaldsflokksins á Skotlandi, sem fékk reyndar aðeins fjórtán prósent atkvæða, hefur lýst sig fylgjandi því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún hefur að vísu boðað afsögn sína vegna slaks gengis Íhaldsflokksins.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sér hins vegar enga þörf fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi og sagðist undrandi á því að Goldie skyldi ljá máls á því.

Salmond telur þó enga þörf á að hraða þjóðaratkvæðagreiðslu, hugsanlega vegna þess að skoðanakannanir benda til þess að einungis þriðjungur Skota myndi greiða atkvæði með stofnun sjálfstæðs ríkis í Skotlandi.

Hann segist stefna á að halda hana á seinni hluta kjörtímabilsins, sem nú er að hefjast.

Gott kosningagengi Þjóðarflokksins, sem fyrir utan þjóðernismálið hefur að mestu sósíaldemókratískar áherslur, má að nokkru rekja til óánægju kjósenda bæði með núverandi samsteypustjórn Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata í Bretlandi og með fyrrverandi Bretlandsstjórn Verkamannaflokksins undir forystu George Brown.

Á síðasta þingi lagði Skoski þjóðarflokkurinn fram frumvarp um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um stofnun sjálfstæðs ríkis, en það frumvarp var fellt á skoska þinginu. Nú er flokkurinn kominn í meirihluta og getur samþykkt þetta frumvarp án stuðnings annarra flokka.

Í kosningunum á fimmtudag var einnig kosið til heimastjórnarþings í Englandi, Wales og á Norður-Írlandi. Þá höfnuðu kjósendur með yfirgnæfandi meirihluta tillögu um nýtt kosningakerfi til þings í Bretlandi.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×