Erlent

Þurfa að sannfæra Bandaríkin

Benjamin Netanjahú Forsætisráðherra Ísraels á ríkisstjórnarfundi um síðustu helgi.Nordicphotos/AFP
Benjamin Netanjahú Forsætisráðherra Ísraels á ríkisstjórnarfundi um síðustu helgi.Nordicphotos/AFP
Ísraelar og Palestínumenn féllust síðastliðið haust á að ljúka friðarsamningum í september á þessu ári. Ekkert hefur gengið í samningaviðræðum, en Palestínumenn virðast ætla að láta reyna á það hvort öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fallist ekki á stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu þegar þessi frestur er liðinn.

Til þess þurfa Palestínumenn þó að sannfæra Bandaríkjastjórn um að beita ekki neitunarvaldi í öryggisráðinu. Mark Toner, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, sagði Bandaríkin ekki telja það góða hugmynd að lýsa einhliða yfir stofnun Palestínuríkis.

Riyad Mansour, fulltrúi Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir þó að Palestínumenn geri sér góðar vonir um að þriðjungur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna muni viðurkenna sjálfstætt Palestínuríki í haust.

Tímasetningin liggi beint við, meðal annars vegna þess að þá ljúki tveggja ára uppbyggingarferli innviða Palestínuríkis, sem geri það að verkum að þá verði allar forsendur fyrir hendi til þess að sjálfstætt ríki verði orðið starfhæft.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×