Innlent

Díoxín mælist enn allt of mikið í Eyjum

Sorpbrennsla í Eyjum Díoxín mælist enn tugfalt yfir þeim mörkum sem nýjum sorpbrennslum er gert að uppfylla.fréttablaðið/óskar
Sorpbrennsla í Eyjum Díoxín mælist enn tugfalt yfir þeim mörkum sem nýjum sorpbrennslum er gert að uppfylla.fréttablaðið/óskar
Magn díoxíns í útblæstri sorpbrennslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum er enn hátt yfir viðmiðum, samkvæmt mælingu sem gerð var í mars. Mælingar benda til að árangur hafi náðst í að hefta útblástur þeirra mengandi efna sem getið er um í starfsleyfi stöðvarinnar, en ryk er þó enn yfir mörkum.

Bæjaryfirvöld í Eyjum sendu frá sér tilkynningu í gær í tilefni fundar sem fulltrúar áttu með Umhverfisstofnun vegna mengunarmælinga. Þar var rætt um mælingar á díoxíni í sauðfé sem unnar voru af Matvælastofnun. Þær mælingar sýndu enga mengun miðað við þau gildi sem fengust í mælingum á kjöti sem fóru fram víðs vegar um landið 2003 og 2004.

Í viðbót við þau viðmið sem gefin eru í starfsleyfi Sorporkustöðvarinnar var mælt brennisteinsdíoxíð, vetnisflúoríð, nituroxíð og díoxín. Í öllum tilvikum eru mælingar innan viðmiða ef frá er skilin mæling á díoxíni, sem enn er hátt yfir viðmiðum.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að áfram verði unnið að úrbótum með sérstaka áherslu á að ná niður rykmengun. Til þess að flýta þeirri vinnu og gera hana markvissari hefur Vestmannaeyjabær samið við Þór Tómasson, sérfræðing hjá verkfræðistofunni Mannviti.

Á yfirstandandi ári mun Vestmannaeyjabær draga úr heildarlosun allra mengandi efna um að minnsta kosti sextíu prósent. Meðal þess sem unnið er að er frekari flokkun sorps, kaup á auknum mengunarvörnum við útblástur, umbætur á brennsluferli og fleira, segir í tilkynningu.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×