Erlent

Leiðtogarnir á Kúbu boða breytta tíma

Frá Kúbu.
Frá Kúbu.
Fidel Castro bauð sig ekki fram í leiðtogakjöri Kommúnistaflokksins á Kúbu í gær. Þess í stað var bróðir hans, Raúl, kosinn leiðtogi flokksins.

Raúl hefur stjórnað landinu frá því Fidel veiktist fyrir meira en fjórum árum. Fidel hefur nýlega upplýst að í reynd hafi hann ekki stjórnað flokknum heldur síðan 2006, þótt hann hafi formlega verið skráður leiðtogi flokksins þar til nú.

Á flokksþingi, sem nú er haldið í fyrsta sinn í fjórtán ár, hafa komið fram hugmyndir um margvíslegar breytingar á skipulagi efnahagsmála og stjórnmála á Kúbu.

Kommúnistaflokkurinn hefur samþykkt 300 tillögur í efnahagsmálum, sem eiga að gefa efnahagslífið frjálst. Ekki er vitað nákvæmlega í hverju þessar breytingar verða fólgnar en ljóst er að íbúum landsins verður nú í fyrsta sinn gert heimilt að kaupa sér húsnæði og stunda frjáls fasteignaviðskipti.

Þá lagði Raoul til að valdatími helstu embættismanna landsins yrði takmarkaður við fimm ár.

Bróðir hans, sem ríkti í nærri hálfa öld, segist vera fylgjandi því:

„Ég er hrifinn af hugmyndinni,“ sagði Fidel. „Þetta er mál sem ég hef lengi velt fyrir mér.“

Öllum að óvörum kom Fidel á þingið og uppskar dynjandi lófatak frá þúsund flokksfulltrúum í stórum ráðstefnusal í höfuðborginni Havana.

Hann skrifaði blaðagrein sem birtist á mánudag, þar sem hann sagði nýja kynslóð leiðtoga flokksins þurfa að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum, stunda sjálfsgagnrýni og taka alla hluti til endurskoðunar.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um breytingar voru það háaldraðir félagar Castros sem kosnir voru í helstu leiðtogaembætti flokksins. Raúl er sjálfur að verða sjötugur og Jose Ramon Machado Ventura, sem kosinn var varaforseti flokksins, er orðinn áttræður. Þá var Ramiro Valdés, sem er 78 ára, kosinn í þriðju valdamestu stöðuna.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×