Erlent

Endurkjörinn í skugga óeirða

Goodluck Jonathan.
Goodluck Jonathan.
Goodluck Jonathan var í gær útnefndur sigurvegari forsetakosninga í Nígeríu, fjölmennasta ríki Afríku. Jonathan, sem tók við forsetaembættinu í þessu mikla olíuríki um mitt síðasta ár, fékk rúmlega tíu milljónum atkvæða meira en helsti keppinautur sinn, Muhammadu Buhari. Auk þess sigraði Jonathan í nógu mörgum fylkjum til að ekki þyrfti að kjósa aftur milli tveggja efstu.

Miklar óeirðir upphófust eftir að úrslitin urðu ljós, en landið er skipt milli fátækra múslima í norðurhlutanum og kristnum mönnum í hinum olíuríka suðurhluta.

Óeirðaseggir kveiktu í húsum þar sem fánar stjórnarflokksins blöktu við hún og skothvellir heyrðust í mörgum borgum og bæjum.

Í gegnum árin hefur ofbeldi og svindl einkennt kosningar í landinu og tveir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu kært niðurstöður kosninganna strax í gær. Flestar eftirlitsstofnanir voru þó á því að kosningarnar hefðu farið löglega fram, þar sem til að mynda var færri kjörkössum stolið í þessum kosningum en þingkosningunum í síðasta mánuði. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×