Körfubolti

Teitur: Skrítið að fara í svona langt frí

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Teitur Örlygsson segir að Stjarnan ætli að njóta þess að spila um Íslandsmeistaratitilinn. fréttablaðið/anton
Teitur Örlygsson segir að Stjarnan ætli að njóta þess að spila um Íslandsmeistaratitilinn. fréttablaðið/anton
Stjarnan gerði sér lítið fyrir og sópaði Íslandsmeisturum Snæfells í frí á lokadegi síðasta mánaðar. Síðan þá hafa Teitur Örlygsson og lærisveinar hans fylgst með rimmu KR og Keflavíkur af hliðarlínunni og beðið eftir því að fá að spila á nýjan leik. Biðinni löngu er lokið því KR tekur á móti Stjörnunni klukkan 19.15 í kvöld í fyrsta leik liðanna um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

"Þetta er búið að vera andskoti langt. Hreinlega minnt á undirbúningstímabil á stundum. Það var spilað þétt fram að fríinu og skrítið að fara í langt frí. Ég hef sleppt strákunum lausum og held það sé ómögulegt að halda mönnum algjörlega við efnið á svona löngum tíma.

Þá verða menn andlega þreyttir. Ég hef reynt að hafa léttan stíganda og nýta reynslu mína. Ég veit ekki hvað er rétt eða rangt. Það kemur bara í ljós," sagði Teitur sem hefur verið að vinna með andlega hlutann síðustu daga og menn verið duglegir að tala saman.

Teitur segir að ómögulegt sé að spá í hvort þetta langa frí sé jákvætt eða neikvætt.

"Sagan segir samt að það sé vont að fara í svona langt frí. Mín reynsla er að það sé gott að koma úr hörkuseríum og slást áfram. Það er okkar að afsanna það," sagði Teitur en bætir við að hans menn þurfi að afsanna fleira enda spá margir því að KR valti yfir Stjörnuna.

"Þetta fer ekki fram hjá okkur. Við kunnum að lesa. Við erum komnir hingað og það er ógeðslega gaman og við ætlum að njóta þess að vera í úrslitum. Við erum líka góðir og við ætlum að reyna að sannfæra fólk um það. Við höfum trú á okkur og þetta verður árshátíðin okkar. Algjör veisla og við ætlum að skemmta okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×