Skoðun

Skuldir óreiðumanna

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar
Tvær fullyrðingar um Icesave eru endurteknar daglega og oft á dag til að réttlæta nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvorug fullyrðingin stenst skoðun, eins og nú verður sýnt fram á:

1. Við borgum ekki skuldir óreiðumanna (fyrrum eigenda Landsbankans). Icesave 3 snýst ekki um það. Samningurinn snýst um að borga lágmarkstryggingu sparifjáreigenda hjá íslenskum bönkum, skv. íslenskum lögum. Okkur þykir sjálfsagt, að stjórnvöld tryggi innistæður Íslendinga í íslenskum bönkum. Ríkisstjórnin gerði það í nafni neytendaverndar. Ella hefðum við þurft að borga skuldir óreiðumanna með sparifé okkar. Ef ríkisstjórnin neitar að gera það sama varðandi útibú íslenskra banka í útlöndum, verðum við einfaldlega dæmd til að gera það. Upphæðin, sem þá verður krafist, er tvöfalt hærri en lágmarkstryggingin skv. Icesave 3, að sögn Lee Buchheits, aðalsamningamanns. Ef við segjum nei við Icesave 3, verður dómstólaleiðin farin. Þá verða gerðar ýtrustu kröfur um vexti, greiðslutíma og kjör. Þá er víst, að eignir Landsbankans munu ekki hrökkva fyrir reikningnum. Þar með yrðum við dæmd til að borga skuldir óreiðumanna.

2. Það er engin lagaskylda að borga. Hið rétta er, að það er engin ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda. Tryggingasjóðnum ber hins vega skylda til að standa við lögbundna lágmarkstryggingu sparifjáreigenda. Þar brugðust íslensk stjórnvöld eftirlitsskyldu sinni. Þeim mátti ljóst vera, að tryggingasjóðurinn var því sem næst tómur. Íslenskum stjórnvöldum bar því skylda til að grípa til ráðstafana til að tryggja, að skuldbindingar sjóðsins lentu ekki á íslenska ríkinu (þ.e. skattgreiðendum). Það gerðu Norðmenn, félagar okkar í EES. Þeir innleiddu sömu lög og við um lágmarkstryggingu sparifjáreigenda hjá norskum bönkum, sem starfa víða um heim. En þeir settu eitt skilyrði: Norski tryggingasjóðurinn tryggir bara innistæður í norskum krónum. Þar af leiðir, að norskir bankar í útlöndum verða að starfa þar sem dótturfyrirtæki (ekki útibú). Þar með eru þeir undir eftirliti og á ábyrgð tryggingasjóða í gistiríkinu. Þess vegna er ekkert Icesave í Noregi. Norsk stjórnvöld gerðu skyldu sína. Íslensk stjórnvöld brugðust skyldum sínum. Það gerir gæfumuninn. Þá sem bregðast lögbundnum skyldum sínum, má sækja til saka.



Niðurstaðan: Ef við höfnum Icesave 3, verðum við dæmd til að borga Icesave 4 – skuldir óreiðumanna. Það mun reynast okkur dýrkeypt. Við tryggjum ekki eftir á.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×