Körfubolti

Fleiri þriggja stiga tilraunir en í nokkrum NBA-leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marcus Walker skaut sautján sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna, þó tveimur færri skotum en liðsfélagi hans, Brynjar Þór Björnsson.
Marcus Walker skaut sautján sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna, þó tveimur færri skotum en liðsfélagi hans, Brynjar Þór Björnsson. Mynd/Daníel
Æsilegum leik KR og Keflavíkur á föstudagskvöldið lauk með sigri síðarnefnda liðsins, 139-135, eftir framlengingu. Samanlagt reyndu leikmenn liðanna að skjóta 85 sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna, þar af KR ingar 61 sinni. Ótrúlegar tölur, sérstaklega þar sem metið í einum leik í NBA-deildinni er 69 skot.

KR setti niður 20 þrista í 61 tilraun en Keflavík þrettán í 24 tilraunum. Skotglöðustu KR-ingarnir voru Brynjar Þór Björnsson (19), Marcus Walker (17), Hreggviður Magnússon (10) og Pavel Ermolinskij (9). Þess má geta að KR-ingar tóku færri skot inn í teignum eða 50 talsins – þar af fóru 29 niður.

„Þeir spiluðu svæðisvörn sem miðaði við að hægja á okkur," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR. „Þeir lögðu kannski ekki upp með að skilja okkur eftir galopna í hverju einasta þriggja stiga skoti en sú varð nú bara raunin. Það er erfitt fyrir góða skotmenn að taka ekki skot þegar það er enginn í tveggja metra radíus við þá. Ég vil að þessi strákar stígi inn í þessi skot með sjálfstrausti sem þeir gerðu," bætti Hrafn við.

„En það leggur ekki nokkur þjálfari upp með þetta – nema kannski Don Nelson eða Doug Mo. Enda tók ég ekki eftir þessum fjölda skota þar sem hvert einasta þeirra var opið."

Liðin mætast aftur í kvöld og þá fær KR annað tækifæri til að tryggja sér sæti í úrslitunum. Staðan í rimmunni er 2-1. „Við ætlum að spila eins og að við séum að spila um titilinn. Það fannst mér vanta í þessum leik en þannig þurfum við alltaf að spila í úrslitakeppninni."

Metið í NBA-deildinniFlestar þriggja stiga tilraunir í NBA:

Portland - Golden State (2005) - 69

Houston - Dallas (1995) - 64

Cleveland - Portland (1995) - 64

Houston - LA Lakers (1996) - 64

Til samanburðar:

KR - Keflavík (2011) - 85




Fleiri fréttir

Sjá meira


×