Innlent

Dómur um heildsölulán fellur í dag

Óvissa er um tvö lagaleg atriði sem geta haft mikil áhrif á kostnað íslenskra skattgreiðenda vegna Icesave. Tekist er á um þessi atriði fyrir dómstólum og mun dómur falla um annað atriðið í dag.

Í mati samninganefndar Íslands í Icesave-málinu á kostnaði ríkisins vegna Icesave er ekki reiknað með hagstæðri niðurstöðu í dómsölunum. Verði niðurstaðan í öðru hvoru málinu hagstæð ætti íslenska ríkið að sleppa alfarið við kostnað vegna Icesave.

Í dag verður kveðinn upp dómur í níu málum þar sem tekist er á um hvort heildsöluinnlán séu í raun forgangskröfur í bú hinna gjaldþrota íslensku banka. Skilanefnd Landsbankans hefur skilgreint heildsöluinnlánin sem forgangskröfur, en aðrir kröfuhafar hafa höfðað mál til að fá því hnekkt.

Teljist heildsöluinnlánin, sem nema um 150 milljörðum króna, ekki forgangskröfur lækka forgangskröfur í bú Landsbankans úr 1.319 milljörðum króna í 1.169 milljarða króna. Slitastjórnin metur eignasafn þrotabúsins á 1.175 milljarða króna. Sé það mat rétt myndi kostnaður skattgreiðenda vegna Icesave-málsins verða enginn, þar sem tryggingasjóðurinn fengi allar sínar kröfur greiddar.

Hitt lagalega atriðið sem tekist er á um er hvort íslenski tryggingasjóðurinn eigi forgang til greiðslna úr búinu umfram aðra innstæðutryggingasjóði. Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður hefur haldið því fram að svo sé.

Tryggingasjóðurinn hefur höfðað mál til að freista þess að fá þetta staðfest. Gerist það fær sjóðurinn allar sínar kröfur greiddar upp í topp og kostnaður skattgreiðenda verður enginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×