Erlent

Uppreisnarmenn á undanhaldi

Á flótta undan Gaddafí Uppreisnarmenn óku á fleygiferð frá Ras Lanúf til Brega í gær.nordicphotos/AFP
Á flótta undan Gaddafí Uppreisnarmenn óku á fleygiferð frá Ras Lanúf til Brega í gær.nordicphotos/AFP
Liðsmenn Múammars Gaddafí náðu olíuborginni Ras Lanúf aftur á sitt vald í gær úr höndum uppreisnarmanna. Einnig var hart sótt að uppreisnarmönnum í olíuborginni Brega.

Uppreisnarmenn kvörtuðu undan því að þeir fengju ekki nægan stuðning frá Vesturlöndum, sem þó hafa haldið áfram loftárásum á her Gaddafís.

Loftárásirnar hafa gert flugher Gaddafís lítt nothæfan og valdið verulegu tjóni á landher hans, en uppreisnarmenn eru engu að síður mun verr búnir til bardaga eftir sem áður.

Bæði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa sagt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fela í sér heimild til að styrkja uppreisnarmenn með því að útvega þeim vopn.

„Ég útiloka það ekki en ég segi heldur ekki að af því verði,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í sjónvarpsviðtali.

Frá Úganda bárust í gær boð um að Gaddafí gæti fengið þar hæli til frambúðar, en ekkert bendir til þess að hann hafi hug á að fara úr landi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×