Erlent

Gætu skýrt upphaf kristninnar

Forn kirkjustaður Þessi hellir í Jórdaníu er talinn vera elsta kirkja kristinna manna. Blýbækurnar fundust einnig í helli í Jórdaníu.nordicphotos/AFP
Forn kirkjustaður Þessi hellir í Jórdaníu er talinn vera elsta kirkja kristinna manna. Blýbækurnar fundust einnig í helli í Jórdaníu.nordicphotos/AFP
Merkur handritafundur, sem gæti varpað nýju ljósi á sögu frumkristninnar, er nú deiluefni Ísraela og Jórdana.

Handritin fundust í helli í Jórdaníu, líklega á árunum 2005 til 2007. Ónafngreindur bedúíni er sagður hafa fundið þær, en annar bedúíni er sagður hafa flutt þær til Ísraels. Hann segir fundarstaðinn lengi hafa tilheyrt fjölskyldu sinni.

BBC fullyrðir að Jórdanar vilji nú fá blýhandrit þessi aftur frá Ísrael.

Handritin eru um það bil sjötíu talsins, en í hverri bók eru aðeins fimm til fimmtán blöð og þau eru ekki stærri en kreditkort. Blöðin eru steypt úr blýi og kopar og bundin saman með hringjum.

Skýrt er frá þessu á vefsíðum breska útvarpsins BBC. Þar er vitnað í sérfræðinga sem segja þennan handritafund hugsanlega jafnast á við Dauðahafshandritin og geti því varpað nýju ljósi á upphaf kristinnar trúar.

Bækurnar eru skrifaðar á fornhebresku og skreyttar ýmsum táknum, sem benda til tengsla við frumkristna söfnuði.

Fyrstu rannsóknir benda til þess að blýplöturnar séu frá fyrstu öld okkar tímatals, en rannsóknir eiga eftir að leiða í ljós hvort þarna sé um síðari tíma verk og hugsanlega fölsun að ræða.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×