Erlent

Ætlar til Gasa á sáttafund

Mahmoud Abbas Hefur tilkynnt að hann ætli ekki að bjóða sig aftur fram til forseta Palestínustjórnar.nordicphotos/afp
Mahmoud Abbas Hefur tilkynnt að hann ætli ekki að bjóða sig aftur fram til forseta Palestínustjórnar.nordicphotos/afp
Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, hefur tilkynnt að hann ætli ekki að bjóða sig fram til forseta aftur. Hann býðst jafnframt til að gefa Hamas-samtökunum tækifæri til að vera með í nýrri stjórn.

Á miðvikudag sagðist hann reiðubúinn að fara til Gasa að hitta Ismaíl Haniyeh, leiðtoga Hamas þar. Haniyeh tók vel í tilboðið og ætlar að skipuleggja heimsóknina, sem stefnt er að á næstu dögum.

Abbas hefur ekki komið til Gasa síðan blóðugum átökum milli Fatah og Hamas lauk árið 2007 með því að Hamas-liðar tóku völdin á Gasa-strönd en Fatah á Vesturbakkanum.

Abbas hefur boðað til kosninga í haust, en þó aðeins ef sættir takast fyrst milli þessara tveggja helstu fylkinga Palestínumanna.

Á þriðjudag héldu þúsundir Palestínumanna út á götur bæði á Vesturbakkanum og á Gasa-svæðinu og kröfðust þess að leiðtogar fylkinganna bindi enda á djúpstæðan ágreining sinn.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×