Fótbolti

Leikurinn í Moskvu hápunkturinn á ferli van der Sar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Umrætt augnablik er Van der Sar ver frá Anelka.
Umrætt augnablik er Van der Sar ver frá Anelka. Nordic Photos / Getty Images
Markvörðurinn Edwin van der Sar segir að hápunkturinn á ferli sínum hafi verið þegar hann varði vítaspyrnu í úrslitaleik Manchester United og Chelsea í Meistaradeild Evrópu árið 2008.

Van der Sar var valinn maður leiksins en úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu.

Cristiano Ronaldo og John Terry misnotuðu báðir sínar í vítaspyrnukeppninni og réðust úrslitin ekki fyrr en í annarri umferð bráðabanans. Þá varði van der Sar frá Nicolas Anelka.

„Það er gaman að hugsa til þessa augnabliks í Moskvu," sagði van der Sar í viðtali við enska fjölmiðla en hann tilkynnti á fimmtudaginn að hann myndi leggja hanskana á hilluna í lok tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Hann leikur vitanlega enn með United.

„Það er auðvelt fyrir sóknarmenn að verja hetjan. Það getur engu máli skipt þó svo að markvörður sýni glæsileg tilþrif í leiknum - ef sóknarmaður skorar á síðustu mínútum leiksins fær hann allar fyrirsagnirnar í blöðunum næsta dag."

„En þannig er það bara. Framherjar eru til þess að skora mörk. En leikurinn í Moskvu var afar sérstakur og þetta augnablik er mér sérstaklega minnisstætt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×