Körfubolti

Ray Allen skráði nafn sitt í sögubækurnar í NBA deildinni

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ray Allen skorar hér þriggja stiga körfu gegn Lakers og þessi var númer 2.561, sem er met.
Ray Allen skorar hér þriggja stiga körfu gegn Lakers og þessi var númer 2.561, sem er met. AP

Ray Allen, leikmaður Boston Celtics, skrifaði nafn sitt í sögubækurnar í NBA deildinni í gær en hann hefur nú skorað flestar þriggja stiga körfur í deildinni frá upphafi - alls 2.561. Metið var í eigu Reggie Miller sem lék í 18 tímabil með Indiana Pacers en Miller var viðstaddur þegar Allen bætti metið - í hlutverki íþróttafréttamanns.

Allen, sem er 38 ára gamall, skoraði tvær þriggja stiga körfur í fyrsta leikhluta gegn LA Lakers í gærkvöld og sú fyrri jafnaði metið og hann bætti síðan metið þegar 1.48 mín. var eftir af fyrsta leikhluta. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út og Allen fagnaði áfanganum með fjölskyldu sinni um stundarsakir og Miller óskaði honum til hamingju með metið.

Boston tapaði reyndar leiknum 92-86 en Allen sagði í leikslok að hann myndi aldrei gleyma þessum leik. Allen er í 25. sæti yfir stigahæstu leikmenn allra tíma í NBA deildinni með 21.875 stig á 15 ára ferli. Hann hefur leikið með Milwaukee, Seattle og Boston. Þriggja stiga línan kom í NBA deildina árið 1979 og Allen hefur skorað 2,4 slíkar körfur að meðaltali frá því hann kom í deildina fyrir 15 árum.

Allen var fljótari að ná 2.560 þriggja stiga körfum en Miller. Allen þurfti 6,430 skot til þess að ná þessu meti og skotnýtingin er frábær, 39,8%. Miller þurfti 6.486 skot til þess að ná 2.560 þriggja stiga körfum og hann var einnig með góða nýtingu, 39,5 %.

„Ég var eins og lítið barn og gat ekki sofið fyrir leikinn. Það er alltaf spenna í loftinu þegar þessi lið mætast en ég vissi að þetta met gat fallið í þessum stórleik - og það var erfitt fyrir mig að halda einbeitingu," sagði Allen.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×