Handbolti

Samantekt úr HM þætti Þorsteins J eftir Þýskalandsleikinn

„Við skorum ekki í tíu mínútu í seinni hálfleik og það er of mikið gegn sterku liði Þjóðverja," sagði Logi Geirsson í HM þættinum Þorsteinn J & gestir á Stöð 2 sport í gær eftir 27-24 tap Íslands gegn Þýskalandi. Ísland er í þriðja sæti milliriðils 1 með 4 stig en Frakkar eru efstir með 5 og Spánverjar eru með 5 stig. Tvö efstu liðin komast í undanúrslit keppninnar.

„Við skoruðum ekki mark úr horninu hjá Guðjóni Val og við vorum ekki að sækja á réttu staðina. Það kemur á óvart að við skyldum ekki taka leikhlé og leiðrétt þetta. Það eru tveir leikir eftir og ef við vinnum þá báða þá erum við komnir í undanúrslit," bætti Logi við.

Hafrún Kristjánsdóttir sagði að Ísland hefði tapað leiknum á lélegum sóknarleik. „Það sem klikkaði gegn Austurríki klikkaði líka gegn Þjóðverjum. Við sækjum allt of mikið inn á miðjuna og við látum brjóta allt of mikið á okkur," sagði Hafrún m.a. í þættinum. Farið var yfir einstök atvik úr leiknum og þau skýrð betur út fyrir áhorfendum.

Guðjón Guðmundsson íþróttafréttamaður Stöðvar 2 sagði að Þjóðverjarnir hafi mætt vel undirbúnir til leiks. „Þeir voru búnir að kortleggja okkur ," sagði Guðjón.

Geir Sveinsson fyrrum fyrirliði íslenska landsliðsin sagði að Íslendingar hafi lent í vandræðum með þýsku vörnina og ekki náð að finna réttu lausnirnar. „Heilt yfir þá vorum við ekki að finna okkur. Það voru of margir leikmenn sem náðu sér ekki á strik fyrir utan Björgvin Pál Gústavsson sem var mjög góður í markinu og Róbert lék vel á línunni," sagði Geir m.a. í þættinum.

Samantekt úr þættinum má skoða með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×