Körfubolti

NBA í nótt: Miami á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danny Granger og Erick Dampier í leiknum í nótt.
Danny Granger og Erick Dampier í leiknum í nótt. Mynd/AP
Miami vann í nótt sigur á Indiana, 110-103, í NBA-deildinni í körfubolta. Dwyane Wade fór á kostum í fyrri hálfleik og jafnaði þá félagsmet.

Wade skoraði 31 stig í fyrri hálfleik sem er metjöfnun í sögu félagsins. Hann skoraði alls 41 stig í leiknum en þeir LeBron James og Chris Bosh voru ekki langt undan. James var með 27 stig og Bosh 22 en saman skoruðu þeir nítján af síðustu 28 stigum Miami í leiknum.

Indiana náði þrátt fyrir allt að koma sér aftur inn í leikinn eftir að hafa lent mest 24 stigum undir í fyrri hálfleik og var liðið með forystu, 83-82, þegar fjórði leikhluti hófst.

Indiana skoraði svo fyrstu körfuna í leikhlutanum en þá tók Miami við sér og vann að lokum nokkuð þægilegan sjö stiga sigur.

Roy Hibbert skoraði átján stig fyrir Indiana og Tyler Hansbrough sextán.

Phoenix vann Utah, 102-101. Channing Frye skoraði 31 stig fyrir Phoenix og tók þar að auki ellefu fráköst. Utah hefur ekki enn unnið leik síðan að Jerry Sloan hætti sem þjálfari liðsins.

Oklahoma City vann Sacramento, 126-94. Daequan Cook skoraði 20 stig og Russell Westbrook var með tíu stig og ellefu stoðsendingar fyrir Oklahoma City.

Chicago vann Charlotte, 106-94. Luol Deng skoraði 24 stig og Derrick Rose var með átján stig og þrettán stoðsendingar.

Memphis vann Philadelphia, 102-91. Mike Conley skoraði 22 stig, öll í síðari hálfleik.

Golden State vann New Orleans, 102-89. Monta Ellis skoraði 21 stig og Dorell Wright sextán fyrir Golden State.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×