Skoðun

Sterk stjórn eða veik?

Svavar Gestsson skrifar
Það er sagt að ríkisstjórnin sé veik. Hundrað sinnum hafa birst myndir af atkvæðaskjánum í þinginu sem sýnir þrjátíu og tvo og þrjátíu og einn. Þessar myndir líta út eins og fjárlögin hafi verið afgreidd með eins atkvæðis meirihluta. Og alls konar spóaleggir sem eru spurðir álits í fjölmiðlum tala eins og það sé kjarni málsins: Eins atkvæðis meirihluti. En þetta er rangt og aftur rangt: Fjárlögin voru afgreidd með þrjátíu og tveimur SAMHLJÓÐA atkvæðum. Þrjátíu og einn greiddi ekki atkvæði - þrjátíu og einn sat hjá. Þessi minnihluti nær ekki saman. Hann situr hjá um fjárlögin.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur komið öllum sínum málum í gegnum þingið. Forsetinn breytti að vísu farvegi Icesave-málsins; um það mun undirritaður fjalla síðar. En ríkisstjórnin kom Icesave-málinu í gegnum þingið með venjulegum meirihluta. Það er kjarni þess máls.

Hvað eftir annað hafa ríkisstjórnir staðið knappar en þessi ríkisstjórn sem nú situr. Stundum valt vantraust á einu atkvæði, stundum réð varaþingmaður úrslitum og tryggði stjórn meirihluta. Allar upphrópanirnar núna um tæpan þingmeirihluta eru ýktar og tilefnislausar.

Ríkisstjórnin situr og það bendir ekkert til annars en hún sitji út kjörtímabilið; það eina sem gæti breytt því er stjórnarliðið sjálft. Að það gefist upp á lokasprettinum. Enginn stjórnarliði vill þó enn láta það um sig spyrjast að hann/hún hafi stytt líf þessarar ríkisstjórnar. Sá stjórnarliði sem gefst upp við verkefnin hefur enn ekki gefið sig fram.

Verkefnin fram undan eru vissulega erfið, en léttari en áður. Það er styttra í land. Icesave-málið klárast. Matarbiðraðirnar verða að hverfa.

Efnahagslífið þarf að rífa upp. Kjarasamningar þurfa að takast.

Ríkisstjórn sem kemur öllum sínum málum í gegnum þingið á tveimur erfiðustu árum lýðveldisins er sterk ríkisstjórn. Hún verður hins vegar veik ef talsmenn hennar trúa því að stjórnin sé veik. Það er heldur ekki endilega til bóta að ráðherrarnir haldi áfram að líkja þingmönnum hins stjórnarflokksins við húsdýr.

Annars lítur árið vel út.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×