Skoðun

Hlutgervingarnir

Bjartmar Þórðarson skrifar

Í fjölmiðlum sjáum við á hverjum degi heimilisvini sem eru fyrir löngu orðnir hluti af tilveru okkar. Rappdónar og aðrir töffarar sem bera ekki virðingu fyrir neinu, beita ofbeldi og taka það sem þeir vilja. Kvendúkkur með fullkomið vaxtarlag og óbeislaða kynhvöt sem ekkert fær kæft. Þessar leikpersónur eiga það sameiginlegt að vera tálsýnir sem höfða til helstu veikleika okkar og selja okkur þannig ákveðinn lífsstíl. Þær eru holdtekjur þess sem við erum ekki. Engu að síður þrá fleiri en vilja viðurkenna það að uppfylla staðlana, að ýkja kvenleika sinn eða karlmennsku.

Þessi þrá er löngun í að vera eftirsóknarverður og ósnertanlegur. Þrá eftir því að vera ekki mannlegur, heldur lýtalaust ofurmenni eða -kvendi. Því lengra sem við göngum í að uppfylla þessar væntingar, þeim mun stærri verður blekkingarvefurinn og þeim mun ómanneskjulegri verða samskipti fólks. Ef við hættum að vera raunverulegt fólk eru síðan líkur á því að aðrir fari að trúa lyginni. Og hvers vegna að fara vel að manneskju sem er ekki raunveruleg?

Draumurinn um manneskjulegra þjóðfélag þar sem ofbeldi af öllum toga er fordæmt kallar á að við horfumst í augu við okkur sjálf. Við erum ekki hlutir, kynlífsdúkkur eða HeMan-kallar. Af hverju ekki að taka niður grímurnar og hætta að hlutgera okkur sjálf? Gæti slíkt mögulega verið fyrsta skrefið í áttina að því að hætta að hlutgera aðra? Hlutgerving manneskju er í beinni andstöðu við samkennd og því er baráttan gegn hlutgervingunni samofin baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Líkami fatafellu er ekki óæðri eða leyfilegra skotmark kynferðisofbeldis en líkami húsmóður, sem er staðreynd sem dúkkuvæðingin reynir ötullega að láta okkur gleyma. Körlum eru síðan einnig settir óraunhæfir staðlar. Samkvæmt þeim er harka vald og eiga þeir að sýna það vald í verki - oft með skelfilegum afleiðingum fyrir bæði kynin.

 

+++++++++++++++++

Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).

Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is.










Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×