Handbolti

Snorri: Að duga eða drepast

Henry Birgir Gunnarsson í Jönköping skrifar

Snorri Steinn Guðjónsson, miðjumaður íslenska landsliðsins, eyddi ekki of miklum tíma í að velta sér upp úr tapinu gegn Þjóðverjum enda mikilvægur leikur fram undan.

"Auðvitað var Þjóðverjaleikurinn vonbrigði enda mjög lélegur leikur af okkar hálfu. Í svona mótum er ekki tími til þess að staldra lengi við leiki og við vorum strax komnir á fullt að undirbúa næsta leik," sagði Snorri.

"Það þýðir ekkert að dvelja við tapleikinn. Við komum vonandi til baka en þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum smá skell. Við verðum að rífa okkur upp og bæta fyrir Þjóðverjaleikinn.

"Spánn er með heimsklassalið sem er að spila ágætlega og mikill stígandi í þeirra leik. Það er að duga eða drepast fyrir okkur og meðan við erum í séns þá berjumst við eins og ljón," sagði Snorri sem varð fyrir smá hnjaski gegn Þjóðverjum en er samt klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×