Innlent

Ítrekuð krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjölmennt var í Valhöll í dag
Fjölmennt var í Valhöll í dag Mynd/Pjetur
Bjarni Benediktsson var ítrekað hvattur til þess að beita sér fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um Icesave samninginn á fundi í Valhöll í dag. „Ég vil þakka Bjarna fyrir þessa ræðu, hún sæmdi formanni vel. Það eina sem ég hefði viljað væri að málstaðurinn væri skárri," sagði Skafti Harðarson, einn fundarmanna.

Sigríður Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort til greina kæmi að fresta málinu þangað til að í ljós kemur hvað kemur út úr eignasafni Landsbankans og hvernig þróun krónunnar verður á þessu ári. Sigríður benti á að Íslendingar væru komnir í þá stöðu sem þeir eru núna, meðal annars í icesave, vegna mikillar áhættusækni.

Fram kom í máli Bjarna að hann telur að meira fáist út úr eignasafni Landsbankans en áður hafi verið talið. Hann sagði jafnframt ekki vera vísbendingar um að gengi krónunnar myndi hrynja á næstunni.

Bjarni segist ekki hafa útilokað að styðja hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu „Ég hef hins vegar ávallt, þegar slík hugmynd kemur upp horft til þess hver samstaðan er í þinginu, hversu miklir hagsmunir eru undir og hversu mikið ákall er hjá þjóðinni," sagði Bjarni. Hann sagði hins vegar að með fyrri samningi hafi efnahagslegri framtíð landsins verið stefnt í voða og því hafi hann stutt hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×