Innlent

Styrmir Gunnarsson: Meiriháttar pólitísk mistök þingflokksins

Valur Grettisson skrifar
Styrmir Gunnarsson vill leggja Icesave-málið aftur í dóm þjóðarinnar.
Styrmir Gunnarsson vill leggja Icesave-málið aftur í dóm þjóðarinnar.

„Það eru meiriháttar pólitísk mistök hjá meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins og forystu þess flokks að gera sér ekki grein fyrir þessu. Þess vegna er nú að rísa bylgja andstöðu innan flokksins vegna þessarar afstöðu meirihluta þingflokksins," skrifar Styrmir Gunnarsson á vef Evrópuvaktarinnar, en hann vill að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, leggi fram tillögu á Alþingi þar sem lagt yrði til að almenningur fái að kjósa um Icesave-frumvarpið, sem nefndarmenn fjárlaganefndar hafa mælst til að verði samþykkt.

Mikil ólga er innan Sjálfstæðisflokksins vegna álits þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sitja í nefndinni, en um 30 manns hafa skráð sig úr flokknum vegna ákvörðunarinnar.

Þingmennirnir Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sitja í fjárlaganefndinni. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur varið álit þeirra í fjölmiðlum.

Styrmir, sem var ritstjóri Morgunblaðsins um árabil, segir í grein sinni að kjarni málsins sé sá að þegar einu sinni er búið að vísa málinu til þjóðarinnar er það lýðræðisleg krafa almennings í þessu landi að hann fái að hafa síðasta orðið.

Hægt er að lesa grein Styrmis í heild sinni á vef Evrópuvaktarinnar.


Tengdar fréttir

Tugir segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Mikil óánægja er meðal sumra sjálfstæðismanna vegna afstöðu flokksins í Icesave málinu. Þrjátíu manns hafa sagt sig úr flokknum í dag. Kristján Þór Júlíusson segir óánægju innan flokksins ekki hafa farið framhjá neinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×