Fótbolti

Vicente del Bosque útilokar ekki að velja Raul í EM-hóp Spánverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raul.
Raul. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Vicente del Bosque, þjálfari spænska landsliðsins, er ekki tilbúinn að loka landsliðsdyrunum á hinn 34 ára gamla Raul sem hefur farið á kostum með þýska liðinu Schalke í vetur. Raul hefur skorað 10 mörk og gefið 4 stosðendingar í 17 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Meiðsli David Villa kosta hann fimm mánaða fjarveru og því er vafi á því hvort Villa verði hreinlega með á EM. Þá hefur Fernando Torres ekki fundið sig hjá Chelsea. Spænskir fjölmiðlar hafa því farið að benda á þann möguleika á að Raul verði kallaður aftur inn í landsliðið.

„Ég er í góðu sambandi við Raul og hann er að gera frábæra hluti. Það eiga allir möguleika á því að komast í landsliðið," sagði Vicente del Bosque við Marca.

Raul lék sinn síðasta landsleik í september 2006 þegar Spánn tapaði óvænt 2-3 fyrir Norður-Írlandi. Spænska landsliðið hefur síðan unnið bæði Heimsmeistaramótið og Evrópumeistaramótið án hans.

Raul skoraði 44 mörk í 102 landsleikjum frá 1996 til 2006 og átti markametið í landsliðinu áður en David Villa sló það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×