Formúla 1

Torro Rosso skiptir um keppnisökumenn fyrir næsta ár

Daniel Ricciardo og Jean Eric Vergne verða ökumenn Torro Rosso á næsta ári.
Daniel Ricciardo og Jean Eric Vergne verða ökumenn Torro Rosso á næsta ári. MYND: Andrew Hone/Getty Images
Torro Rosso liðið ítalska hefur ákveðið að skipta um keppnisökumenn fyrir næsta keppnistímabil. Jean Eric Vergne og Daniel Ricciardo verða ökumenn liðsins í stað Sebastian Buemi og Jamie Alguersuari. Vergne verður nýliði sem keppnisökumaður í Formúlu 1, en Ricciardo ók með HRT liðinu á þessu keppnistímabili, eftir að hafa tekið sæti Narain Karthikeyan.

Torro Rosso liðið hefur verið starfrækt frá árinu 2006, en báðir ökumennirnir sem aka með liðinu á næsta ári hafa verið undir handleiðslu Red Bull síðustu ár, sem hefur stutt við þá með ráði og dáð á ferli þeirra. Red Bull fyrirtækið austurríska á bæði Formúlu 1 lið Red Bull og Torro Rosso. Franz Tost, yfirmaður Torro Rosso liðsins kvaðst ánægður að liðið hafi tekið ákvörðun snemma um hvaða ökumenn aka með liðinu á næsta ári.

Ricciardo er 22 ára og fæddur í Ástralíu og ók á föstudagsæfingum með Torro Rosso á þessu ári, áður en hann fékk sætið hjá HRT liðinu í stað Karthikeyan.

„Þetta er stórmál fyrir mig og nokkuð sem ég hef viljað frá því ég var að keyra fyrir Torro Rosso á föstudagsmorgun á mótshelgum á fyrri hluta tímabilsins. Ég er enn hoppandi glaður af spenningi vegna þessara frétta", sagði Ricciardo í fréttatilkynningu frá Torro Rosso. Ricciardo ók í sjö mótum með HRT liðinu og kvaðst hafa lært mikið af því.

Vergne er franskur og ók á þremur föstudagsæfingum með Torro Rosso undir lok keppnistímabilsins. Hann er 21 árs og varð meistari í Formúlu 3 í Bretlandi í fyrra.

„Fyrst og fremst verð ég að þakka Red Bull fyrir allan stuðningin til þessa og fyrir að trúa því að ég sé tilbúinn að takast á við það verkefni að keppa í Formúlu 1. Jólin komu snemma í ár!" sagði Vergne. Auk þess að aka á föstudagsæfingunum, þá ók Vergne þrjá daga á æfingum ungra ökumanna í Abú Dabí eftir að keppnistímabilinu í Formúlu 1 lauk á bíl frá Red Bull liðinu og náði besta tíma dagsins alla æfingadagana.

„Mér finnst ég tilbúinn að taka skrefið, jafnvel þó ég viti að það er mikill munur á æfingum og því að keppa," sagði Vergne og kvaðst hafa notið þessa að vinna með Torro Rosso á árinu og bíður þess spenntur að sitja á ráslínunni í Melbourne í Ástralíu í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×