Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - KR 72-60

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Þorlákshöfn skrifar
Michael Ringgold var stigahæstur hjá heimamönnum í kvöld.
Michael Ringgold var stigahæstur hjá heimamönnum í kvöld. Mynd / HAG
Þór frá Þorlákshöfn er komið með annan fótinn í undanúrslit Lengjubikarsins eftir ótrúlegan 72-60 sigur á Íslands- og bikarmeisturum KR í kvöld á heimavelli sínum.

Ótrúlegur varnarleikur Þórs, sérstaklega í seinni hálfleik. gerði útslagið í kvöld en KR skoraði aðeins 25 stig í seinni hálfleik, þar af 10 í þriðja leikhluta þegar Þór náði yfirhöndinni í leiknum.

KR vann fyrri leik liðanna með einu stigi og því hefur Þór betur í innbyrðisviðureignum liðanna í A-riðli Lengjubikarsins. Þór mætir fyrstu deildarliði Skallagríms í síðsta leik sínum í riðlinum og er því komið með annan fótinn inn í undanúrslitin en úrslitahelgin verður leikin á heimavelli KR í DHL-höllinni.

KR byrjaði leikinn mun betur með frábæran varnarleik að vopni. Þór skoraði aðeins þrjú stig fyrstu sex mínútur leiksins og var sjö stigum undir 3-10. Þórsarar náðu að minnka muninn í tvö stig en KR var fjórum stigum yfir að lokum fyrsta leikhluta, 14-18.

KR hóf annan leikhluta með látum náði fljótt átta stiga forystu, 14-22, og þegar leikhlutinn var hálfnaður var muninn kominn í 10 stig, 19-29. Hjá Þór munaði mikið um að Darrin Govens hafði fram að þessu verið úti á þekju í sóknarleiknum. Sniðskot geiguðu og hringurinn virtist lokaður þrátt fyrir opin færi.

Þá skyndilega fóru skotin að detta hjá Þór og heimamenn náðu betri tökum á varnarleiknum. Hægt og rólega minnkuðu heimamenn muninn þar til aðeins munaði tveimur stigum í hálfleik, 33-35, og leikurinn í járnum.

Ólíkt leikhlutum eitt og tvö hóf Þór seinni hálfleikinn af krafti og komst yfir, 37-35, með því að skora tvær fyrstu körfurnar. Eftir tæplega fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik kom Michael Ringgold Þór fimm stigum yfir, 44-39, með kraftmikilli troðslu eftir hraðaupphlaup og þakið ætlaði af húsinu, slíkur var fögnuður Græna Drekans á áhorfendapöllunum.

Hrafn Kristjánsson brást við með því að taka leikhlé og KR-ingar svöruðu kalli þjálfarans með að bæta í vörnina á nýjan leik og minnkuðu muninn í eitt stig, 44-43. Þá tók Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs leikhlé sem skilaði enn betri árangri því Þór skoraði 10 stig í röð og náði 11 stiga forystu, 54-43, þegar rétt rúmlega mínúta var eftir af þriðja leikhluta. KR skoraði síðustu körfu þriðja leikhluta og forysta Þórs því níu stig þegar fjórði leikhluti hófst.

Þórsarar héldu áfram af sama krafti í upphafi fjórða leikhluta og náðu fjórtán stiga forystu, 62-48. Þann mun náði KR aldrei að brúa og Þór vann verðskuldaðan og öruggan sigur að lokum.

Benedikt: Sætti mig við 60 stig

 „Þetta var baráttusigur. Það var þvílík barátta  í liðinu og loksins er maður farinn að ná þessum varnaráherslum inn. Ég vissi alltaf að þó við værum undir í fyrri hálfleik að við myndum ná tökum á þessum leik um leið og við færum að hitta. KR var að spila hörku vörn. Þetta var varnarleikur í dag eins og við viljum hafa hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR í leikslok.

„Við erum í dauðafæri að ná inn í undanúrslitin. Við erum ekki komnir þangað inn, við þurfum að klára þann leik. Við spiluðum hörkuleiki við Skallagrím í fyrra sem báðir réðust í blá lokin þannig að ég ber ekkert nema virðingu fyrir Sköllunum,“ sagði Benedikt sem hefur engar áhyggjur af sóknarleiknum þegar varnarleikurinn er í þessu formi.

„Við hittum illa. Bæði kaninn hjá mér og eins Tairu hjá KR. Hann tók reyndar mikið af erfiðum skotum en þetta var að dreifast vel. Mér er alveg sama þó við skorum ekki 80, 90 eða 100 stig á meðan við fáum á okkur 60 stig. Þeir skora þrist í lokin og þetta hefði getað litið ennþá betur út í 57 en 60, ég sætti mig alveg við það,“ sagði glaðbeittur Benedikt að lokum.

Hrafn: Framkvæmum annað en talað er um

„Stiga skorið sem slíkt segir ekki allt, það fer eftir hraðanum í leiknum en við vorum hreinlega lélegir. Flæðið var ágætlega með okkur í fyrri hálfleik og mér fannst við geta verið tíu stigum yfir í hálfleik en í þriðja leikhluta vorum við allt of soft. Þeir fá á sig dæmdar þrjár villur á móti ég veit ekki hvað mörgum hjá okkur og það skýrir sig á því að við vorum allt of veikir með boltann og að reka boltanum í einhverja vitleysu,“ sagði vægast sagt ósáttur Hrafn Kristjánsson þjálfari KR í leikslok.

„Varnarleikurinn var ágætur í fyrri hálfleik og allt í lagi í seinni hálfleik. Við gerum samt slæma feila oft á tíðum. Við tölum um vissa hluti fyrir leikina og teljum okkur þekkja leikmenn ágætalega í hinu liðinu fyrir hvern einasta leik en það er helvíti hart að það sé síðan ekki framkvæmt sem talað er um.“

„Þetta er einhver einbeitingarþáttur. Það hefur verið gangurinn á þessu KR liði að vinna annað hvert á og ég veit ekki alveg hvað málið er en ég ætla rétt að vona að fólk sé ekki búið að éta yfir sig á einum titli og geti sig ekki hreyft núna,“ sagði Hrafn sem gerir sér ekki miklar vonir um að Þór misstígi sig gegn Skallagrími í lokaleiknum og KR komist á undraverðan hátt í undanúrslitin.

„Við vinnum á klukkunni og skrifum skýrslurnar. Við höldum þetta blessaða fjögurra liða mót og það er bara gott á okkur,“ sagði Hrafn að lokum.

Þór Þorlákshöfn-KR 72-60 (14-18, 19-17, 21-10, 18-15)

Þór Þorlákshöfn: Michael Ringgold 21/12 fráköst, Darri Hilmarsson 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 11/6 fráköst, Darrin Govens 9/7 fráköst/7 stoðsendingar, Marko Latinovic 9/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 5, Grétar Ingi Erlendsson 5/6 fráköst.

KR: Edward Lee Horton Jr. 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, David Tairu 11/4 fráköst, Hreggviður Magnússon 8/9 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 4, Martin Hermannsson 4, Finnur Atli Magnusson 4/6 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3/5 fráköst, Ólafur Már Ægisson 2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×