Fótbolti

Ekki færri áhorfendur á leikjum í norsku úrvalsdeildinni í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar spiluðu á heimavelli Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar í sumar.
Blikar spiluðu á heimavelli Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar í sumar. Mynd/AFP
Norðmenn hafa nú tekið saman aðsókn að leikjum norsku úrvalsdeildarinnar á nýloknu tímabili og komist að því að það hafa ekki komið færri áhorfendur á leiki deildarinnar í sjö ár.

Tæplega tvær milljónir (1 917.671) komu á 240 leiki norsku úrvalsdeildarinnar í ár eða 7990 að meðaltali á leik. Metárið varð 2007 en þá mættu 10.516 að meðaltali á hvern leik. 8108 mættu síðan að meðaltali í fyrra.

Það voru bara lið Molde og Tromsö sem fengu fleiri áhorfendur á leiki sína í ár heldur en í fyrra. Start, Rosenborg og Odd Grenland voru hinsvegar þau lið sem misstu flesta áhorfendur milli ára. Start fékk sextán prósent færri á völlinn og áhorfendur á heimaleiki Rosenborg og Odd Grenland fækkaði um fjórtán prósent.

Flestir áhorfendur komu samt sem áður á leiki Rosenborg (14.511 á leik) en Vålerenga fór upp fyrir Brann og upp í annað sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×