Fótbolti

Pálmi Rafn búinn að semja við Lilleström

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. Mynd/Stefán
Pálmi Rafn Pálmason hefur skrifað undir þriggja ára samning við Lilleström en hann hefur spilað með Stabæk undanfarin fjögur tímabil. Þetta var tilkynnt á heimasíðu norska liðsins í dag.

„Við erum búnir að skrifa undir þriggja ára samning við Pálmason frá og með 1. janúar 2012. Við erum mjög ánægðir með að hann komi til okkar og það gleður okkur mikið að sjá hann í búningi LSK," sagði Torgeir Bjarmann, yfirmaður íþróttamála félagsins.

„Pálmi er fengin til þess að spila hægra megin á miðjunni. Hann er sókndjarfur miðjumaður sem bæði skorar og leggur upp mörk. Hann er dæmigerður íslenskur leikmaður sem eru jafnan vinnusamir og passar því vel inn í okkar lið," sagði Bjarmann.

Pálmi Rafn skoraði 8 mörk í 26 leikjum með Stabæk á síðasta tímabili og lék með Val, KA og Völsungi áður en hann fór út í atvinnumennsku til Noregs.

Þrír íslenskir leikmenn léku með Lilleström á síðasta tímabili: Stefán Logi Magnússon, Björn Bergmann Sigurðarson og Stefán Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×