Körfubolti

Frábær fjórði leikhluti færði Fjölni sigur á Íslandsmeisturum KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson lék á ný með Fjölni í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson lék á ný með Fjölni í kvöld. Mynd/Valli
Fjölnir vann óvæntan 100-96 sigur á Íslandsmeisturum KR í Iceland Express deild karla í Grafarvoginum í kvöld. Fjölnir tryggði sér sigurinn með frábærum fjórða leikhluta sem Grafarvogspiltar unnu 30-20.

Calvin O'Neal skoraði 31 stig fyrir Fjölni og Nathan Walkup var með 27 stig og 14 fráköst. Árni Ragnarsson var síðan með 14 stig og 11 fráköst.

David Tairu skoraði 25 stig fyrir KR og Edward Lee Horton var með 24 stig. Hreggviður Magnússon skoraði síðan 16 stig.

Liðin skiptust á því að hafa forystuna í jöfnum fyrsta leikhluta en þriggja stiga karfa Skarphéðins Freys Ingasonar kom KR í 25-22 við lok hans.

KR-ingar héldu síðan ágætu forskoti í öðrum leikhlutanum, komust mest níu stigum yfir og voru 54-46 yfir í hálfleik.

KR-liðið komst í framhaldin mest ellefu stigum yfir í þriðja leikhlutanum en var 76-70 yfir við lok hans.

Fjölnir endaði þriðja leikhlutann vel og hélt áfram að vinna upp forskot KR-inga í fjórða leikhlutanum.

Fjölnismenn voru búnir að jafna leikinn í 91-91 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þeir komust síðan yfir þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum og ennfremur í þriggja stiga forystu, 97-94, þegar aðeins hálf mínúta var eftir. Fjölnismenn héldu síðan út og tryggðu sér óvæntan sigur.



Fjölnir-KR 100-96 (22-25, 24-29, 24-22, 30-20)

Fjölnir: Calvin O'Neal 31/5 fráköst, Nathan Walkup 27/14 fráköst, Árni Ragnarsson 14/11 fráköst/3 varin skot, Trausti Eiríksson 8, Hjalti Vilhjálmsson 8, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/6 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 4, Ægir Þór Steinarsson 1.

KR: David Tairu 25/8 fráköst, Edward Lee Horton Jr. 24/7 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 16/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 11/8 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 6/4 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 5/5 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 3, Martin Hermannsson 2/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 2, Björn Kristjánsson 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×