Fótbolti

Bayern ætlar ekki að selja í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ivica Olic, leikmaður Bayern München.
Ivica Olic, leikmaður Bayern München. Nordic Photos / Bongarts
Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern München, hefur útilokað að félagið muni selja leikmenn þegar að opnað verður fyrir félagaskipti um áramótin næstu.

Ivica Olic, sóknarmaður Bayern, hefur helst verið sagður á leið frá félaginu en hann hefur lítið fengið að spila með aðalliði liðsins í haust.

„Það kemur ekki til greina að selja leikmenn,“ sagði Rummenigge. „Það er ekki það sem þjálfarinn vill og erum við sammála honum. Við erum með nokkuð lítinn leikmannahóp - aðeins 20 leikmenn.“

„Ég vona að við verðum enn með í öllum keppnum þegar að vetrarfríinu lýkur í janúar. Verði það tilfellið þurfum við á öllum okkar leikmönnum að halda.“

Samningur Olic við Bayern rennur út næsta sumar og er ekki ólíklegt að honum verði boðinn nýr samningur, þrátt fyrir allt. „Leikmenn eiga að einbeita sér að fótboltanum en þegar að tímabilið er hálfnað munum við setjast niður með leikmönnum og umboðsmönnum þeirra.“

Bayern mætir Borussia Dortmund í risaslag þýsku úrvalsdeildarinnar nú um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×